Færsluflokkur: Bloggar
11.6.2012 | 19:05
Gleymdu handbremsunni
Mínir menn, Frakkarnir, gleymdu einfaldlega að taka handbremsuna af þegar þeir hlupu inn á völlinn. Þeir voru eitthvað þvingaðir í kvöld, miðað við æfingaleikina að undanförnu. Dómineruðu en voru ekki nógu gráðugir að mínu mati. Kannski hræðsla við að tapa hafi háð þeim eitthvað en þeir voru þó segir að koma sér aftur inn í leikinn og jafna svo fljótt sem raun varð á. Brillíant mark hjá Nasri.
Þreytulegt jafntefli Englendinga og Frakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2012 | 08:25
Réðu auðu seðlarnir úrslitum í Frakklandi?
Rúmlega tvær milljónir kjósenda í frönsku forsetakosningunum skiluðu auðu. Talið er að þessi atkvæði séu að langmestu leyti frá kjósendum Þjóðfylkingarinnar, öfgaflokks hægrimanna, en forsetaefni hennar, Marine Le Pen, hvatti kjósendur sína til að skila auðu í seinni umferðinni. Menn spyrja sig nú hvort hún hafi með því komið í veg fyrir endurkjör Sarkozy.
Auðu atkvæðin voru 2,14 milljónir eða 5,85% greiddra atkvæða sem alls voru um 38,7 milljónir, þar af skiptust 35.552.169 á frambjóðendurna tvo. Á Hollande og Sarkozy munaði um 1,2 milljón atkvæða; Holland fékk um 18,8 milljónir og Sarkozy um 17,6 milljónir. Kjörsókn var 81,28%.
Nathalie Kosciusko-Morizet, talskona Nicolas Sarkozy, skellti skuldinni á Marine Le Pen í gærkvöldi og sagði hana bera sök á úrslitunum. Enn sem komið er liggur engin greining fyrir hendi á því hvaðan auðu atkvæðin eru komin en í fyrri umferðinni voru þau um 700.000 talsins, eða 1,9% greiddra atkvæða.
Verði Hollande kosinn forseti í kvöld er það vegna mikils fjölda auðra atkvæða. Þau stuðla að kjöri Fransois Hollande, sagði hún á kosningavöku TF1-stöðvarinnar. Og hélt áfram: Marine Le Pen hvatti fólk til að skila auðu. Við vöruðum við því og sögðum það myndi stuðla að sigri Hollande.
Auðir seðlar hafa aðeins einu sinni verið hlutfallslega fleiri, eða í kosningunum 1969. Þar fór lokalotan fram milli tveggja hægrimanna, Georges Pompidou og Alain Poher. Vinstrimenn áttu þar ekki fulltrúa og skiluðu margir auðu, eða 6,42% atkvæða.
Í seinni umferðinni 1995 milli Jacques Chirac og Lionels Jospin voru auð atkvæði 5,97% og í seinni umferðinni 2002 milli Chiracs og Jean-Marie Le Pen var hlutfallið 5,38%.
Kosningaúrslitin í raun jafntefli?Annars eru úrslit kosninganna athyglisverð í ljósi þess að ekki eru margir mánuðir frá því skoðanakannanir sýndu, að frambjóðandi sósíalista myndi leggja Sarkozy að velli með 62% atkvæða gegn 32%. Og síðustu vikur og daga bentu fylgismælingar til enn meiri munar en úrslitin urðu. Það segja stjórnmálaskýrendur veikja Hollande og miklu fremur verði að tala um jafntefli en afgerandi sigur hans.
Þá segja þeir, að það hafi ekki verið stefna Sarkozy sem varð undir í kosningunum heldur hafi honum verið refsað fyrir forsetastíl sinn.
Þegar öll atkvæði höfðu verið talin var skerfur Hollande af þeim sem greidd voru frambjóðendunum tveimur 51,62% en skerfur Sarkozy 48,38%. Á það er og bent, að Hollande hafi ekki meirihluta greiddra atkvæða á bak við sig, því séu auðu seðlarnir taldir sé hlutur hans 48,8% af greiddum atkvæðum.
Kosning Hollande er fyrsti sigur sósíalista í forsetakosningum í nær aldarfjórðung, eða frá 1988, en þá vann Francois Mitterrand seinni sigur sinn. Þá er þetta í fyrsta sinn sem sósíalistar komast að völdum frá því stjórn Lionel Jospin fór frá eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Síðasta þingmeirihluta sinn unnu vinstrimenn 1997. Spurning er hvort það breytist í næsta mánuði er Frakkar kjósa ti lþings.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2012 | 17:54
Kjósendur Hollande ekki sólgnir í hann
Útlit er fyrir að Frakkar fái nýjan forseta á sunnudag. Nái Francois Hollande kjöri er það ekki vegna þess að meirihluti kjósenda sé sólginn í hann sem forseta. Heldur vegna þess hversu margir hægrimenn hafa snúið baki við Nicolas Sarkozy og vilja hann ekki lengur.
Þetta er viðurkennd staðreynd og mikið til umræðu meðal stjórnmálaskýrenda, í sjónvarpi, útvarpi og blöðum hér í Frakklandi. Þeir eru sammála um að Hollande verði helst að vinna sigur með rúmlega 53% til að hann geti talist afdráttarlaus. Nýjustu fylgismælingar gefa honum 52,5 til 53 prósent en mjög hefur dregið saman með þeim Sarkozy síðustu vikurnar. Allt undir 52% myndi teljast sem of knappur sigur fyrir Hollande og veikja stöðu hans.
Sarkozy hlaut rúmlega 53% í kosningunum 2007 og þáverandi frambjóðandi sósíalista, Segolene Royal 47%. Lýsti hún því sem miklum sigri svo ljóst er að fyrrverandi sambýlismaður hennar og barnsfaðir, Hollande, mun uppskera meira nú.
Frakkar eru ótrúlega óþolinmóðir og snúast margir gegn Sarkozy þar sem lítið hefur orðið úr loforðum hans, m.a. um aukinn kaupmátt og öflugt atvinnulíf. Önnur atriði spila inn í eins og andúð á lífsstíl forsetans. Þetta fólk lítur alveg framhjá afleiðingum efnahagskreppu en Frakkar hafa þó farið betur út úr henni en flestar þjóðir að Þjóðverjum undanskildum. Og þetta fólk fylkir sér um Hollande þótt flestir séu sammála um að stefna hans sé ekki til þess fallin að bæta ástandið, jafnvel að gera það enn verra. Hann boðar aukin ríkisumsvif þótt ríkið skuldi rúmlega 1700 milljarða evra, en þær nema rúmlega 90% af vergri landsframleiðslu. Afborganir af þeim nema 180 milljörðum evra á ári og vextir 43 milljörðum.
Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja líkur á áhlaupi vogunarsjóða og spekúlanta og skortstöðutökum sem geti átt eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Og ekki síst þær að Hollande neyðist til að falla fljótt frá loforðum sínum í efnahags- og atvinnumálum til að geta haldið sjó með aðhaldi og niðurskurði og niðurgreiðslu skulda - með öðrum orðum fara þann veg sem Sarkozy hefur sagst ætla fara.
Verði þetta raunin kæmi mér ekki á óvart þótt ókyrrð yrði í landinu og það mun fyrr en margur heldur.
Það gerir kosningarnar enn athyglisverðari - fari þær eins og kannanir benda til - því stjórnmálaskýrendur eru sammála um að meirihluti Frakka sé hægrisinna, eða 52-32% hið minnsta. Aftur á móti séu vinstrimenn í mesta lagi 44 til 45% kjósenda.
Já, frönsk stjórnmál eru um margt óvenjuleg og skemmtileg. Norðurlandabúa eins og mér finnst ansi margt mótsagnakennt í orðum og athöfnum. Átökin geta verið sérdeilis óvægin og hörð og á öðru plani en við eigum að venjast. Bókstaflega örlar oft á hatri og spilling er áberandi í röðum kjörinna fulltrúa, og það ekki síður á vinstri vængnum sem þeim hægri. Ég efast oft um jarðsamband hinnar pólitísku elítu enda í henni aðallega fólk af efnastétt og úr aristókratíunni - til dæmis Hollande og Royal - sérþjálfað í sérstökum elítuskólum. Sarkozy er einn örfárra sem ekki hefur gengið þann veg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2012 | 11:01
Ógilding kosninga vofir yfir Hollande
Frökkum er einkar annt um leikreglur lýðræðisins. Því hefur forsetaframbjóðandinn Francois Hollande fengið gula spjaldið fyrir of mikinn kostnað við kosningabaráttuna. Og hugsanleg ógilding kosningar hans vofir yfir haldi hann sig ekki innan regla.
Kostnaður við framboð Hollande er þegar kominn talsvert yfir 20 milljónir evra, en lögin banna frambjóðendum að verja meiru en 22,5 milljónum til hennar. Viðurlögin eru að uppgjörinu yrði hafnað og kosningar ógiltar.
Hollande hóf baráttu sína svo til strax eftir útnefningu Sósíalistaflokksins í fyrrahaust. Frá fyrsta degi hefur hann verið á þönum út um allar jarðir og kostnaður hlaðist upp. Nú er svo komið, að sögn fjölmiðla, að hann hefur orðið að takmarka umsvifin stórlega milli fyrri og seinni umferðar forsetakosninganna.
Af þessum sökum heldur hann einungis einn stóran fund fyrir seinni umferðina. Til stóð að hann yrði haldinn á fótboltavellinum í Toulouse en til að spara leigugjöld hefur verið hætt við það. Í staðinn verður fundurinn haldinn á torgi einu í bænum. Þá þykir til efs að hann hafi úr þessu efni á milljónum eintaka kosningableðils sem dreift yrði inn á heimili fólks.
Þessar upplýsingar hafa dregið athygli manna að fjármálastjórn Hollande sem hefur ekki verið hans sterkasta hlið. Til að mynda er héraðið sem hann er í forystu fyrir, Correze, eitt það skuldugasta og verst setta í Frakklandi. Og nú er upplýst að hann hafi ekki vald á bókhaldi kosningabaráttunnar. Því er spurt hvort hið sama yrði ekki ofan á varðandi ríkisútgjöldin ef hann næði kosningu sem forseti Frakklands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2012 | 17:40
Eva Joly dæmd úr leik?
Spurning dagsins er hvort þær Eva Joly og Marine Le Pen verði dæmdar úr leik í frönsku forsetakosningunum, þ.e. atkvæði þeirra í kosningunum í fyrradag verði ógilt.
Tveir lögmenn kærðu kosningarnar í gær til stjórnlagaráðsins og kröfðust þess að atkvæði Joly og Le Pen - sem báðar eru einnig lögmenn - á þeirri forsendu að nöfnin Eva Joly og Marine le Pen standist ekki kosningnalöggjöfina. Þetta séu ekki hin lögformlega réttu for- og eftirnöfn þeirra, eins og lögin um útlit kjörseðla kveða á um.
Samkvæmt þjóðskrá sé nafn Evu Joly í raun Gro Eva Farseth og Marine Le Pen heitir það ekki nema svona til þæginda; hennar rétta nafn samkvæmt þjóðskránni sé Marion Anne Perrine Le Pen.
Að sögn kærenda hefði því átt lögunum samkvæmt að standa á kjörseðlunum Gro Farseth og Marion Le Pen. Fyrir liggur ekki hvenær stjórnlagaráðið tekur afstöðu tilkærunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2012 | 18:07
Friðsamlegt hjónaband
Við grúsk í gömlum Mogga, frá þriðja áratug síðustu aldar, rakst ég á eftirfarandi klausu, sem er hin fróðlegasta. Annað hvort tragísk eða kómísk, allt eftir mælikvarða hvers og eins. Athyglisvert hjónaband annars þar sem hjónin talast ekki við í 18 ár.
Slíkt gæti sennilega ekki gerst á mínu heimili og ef eitthvað er þá er eins og konunni finnist ég stundum tala of mikið! En hér er klausan góða:
"Hjón í Michigan sóttu til yfirvaldanna um skilnað. Þau höfðu verið gift í 18 ár, en talast við aðeins fjórum sinnum allan tímann. Bóndinn var nú orðinn þreyttur á þögninni, og sótti um skilnað. Í byrjun hjúskaparsamverunnar hafði ungu hjónunum orðið sundurorða, og skipaði bóndi þá konu sinni að þegja, sem hún gerði ræðilega í 18 ár."
Það fylgdi svo sögunni, að dómarinn hafi ekki heimilað skilnað á þessum forsendum! Ekki fylgir fregnum hvert framhaldið var, hvort eitthvað hafi ræst úr og karl og kerling farið að tala saman!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2011 | 17:31
Eva Joly dæmd fyrir meiðyrði
Eva Joly, dómarinn fyrrverandi, sat fyrir skömmu á sakamannabekk í meiðyrðamáli sem júdókappinn og íþróttaráðherrann David Douillet höfðaði á hendur henni. Dómur gekk í gær og var Joly sakfelld.
Henni var úrskurðuð 1.000 evra sekt í ríkissjóð og hún dæmd til að borga málskostnað ráðherrans, 3000 evrur, auk þess sem hún var dæmd til að borga honum þær táknrænu miskabætur sem hann krafðist, eina evru.
Forsaga málsins er sú að í hitteðfyrra, árið 2009, bar Eva Joly júdókappann fyrrverandi þeim sökum, að hann geymdi fé á reikningum í skattaparadísinni Liechtenstein.
Dómarar sem dæmdu Joly snupruðu hana og sögðu að hún ætti sem fyrrverandi dómari að vita að henni væri óheimill slíkur áburður á opinberum vettvangi ef hún hefði engin sönnunargögn til að styðja sitt mál. Sögðu þeir, að hún hafi sýnt af sér kæruleysi með yfirlýsingum sem hún hafi haft í frammi án þess að hafa kynnt sér málið eða byggt það á bjargföstum staðreyndum.
Eva Joly hefur ákveðið að áfrýja dóminum. Sektargreiðslan er skilorðsbundin og fellur niður að tilteknum tíma liðnum haldi hún skilorðið. Þótt dómurinn þykir ekki góðar fréttir fyrir hana í aðdraganda forsetakosninganna næsta vor segist Joly ætla halda kosningabaráttu sinni ótrauð áfram og láta hann í engu koma sér úr jafnvægi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2011 | 18:57
Maður að mínu skapi
Wilkins er maður að mínu skapi. Fyrir þessu hef ég lengi talað varðandi íslensk lið t.d. Það er hallærisleg ráðstöfun að reka alltaf þjálfarann. Eftir sitja menn með sama ódugandi tapliðið. Og oft hefur ráðstöfunin litlu breytt. Mér finnst full ástæða til að prófa nýjar leiðir - þ.e.a.s. reka liðið en ekki þjálfarann.Það er tilraunarinnar virði. Bara spurning um kjark. Aldrei hefði þýtt fyrir mig að reka þjálfara minn í gamla daga ef ekkert gekk. Þeir kepptu ekki, heldur ég.
Wilkins: Skiptið um leikmenn en ekki stjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2011 | 10:59
Heimsmeistarar í svartsýni
Frakkar eru ekki bara heimsmeistarar í handbolta og ýmsum öðrum íþróttum. Þeir eru einnig heimsmeistarar í svartsýni ef marka má afkomuvæntingar þeirra á nýja árinu. Eru þeir meir að segja bölsýnni en íbúar stríðshrjáðra landa á borð við Írak og Afganistan.
Þetta eru niðurstöðu alþjóðlegrar skoðanakönnunar sem birtist í blaðinu Le Parisien í gær, 2. janúar, og unnin var af BVA-Gallup. Alls telja 61% Frakka að árið verði þeim fjárhagslega erfitt, en meðaltalið sem er þeirrar hyggju á alþjóðavísu er aðeins 28%.
Til samanburðar óttast aðeins 22% Þjóðverja að afkoma þeirra verði verri í ár en 2010. Á Ítalíu er hlutfallið hins vegar 41%, 48% á Spáni og 52% í Bretlandi. Og bölsýnin hefur aukist frá því fyrir ári var hlutfall svartsýnna Frakka 10 prósentustigum minna, eða 51%.
Spurðir um eigin stöðu nú segja 37% Frakka hana hafa versnað á nýliðnu ári. Spurðir um afstöðu til atvinnuástandsins óttast 67% Frakka að atvinnuleysi muni aukast í ár. Það hlutfall var einungis hærra í Bretlandi og Pakistan.
Mér hefur löngum þótt Frakkar meistarar í því að kvarta og kveina, jafnvel þótt þeir hafi það ansi gott. Einna verstir eru þeir sem njóta mestra forréttinda. Alls kyns mótmæli eru birtingarform þessarar óánægju. Og það athyglisverða er, að stjórnmálamenn hafa oftast gefið undan. Þess vegna var ólgan svo mikil á stundum 2010; því stjórn Sarkozy forseta lét ekki undan áköfum mótmælum, m.a. við skynsömum breytingum á lífeyriskerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2010 | 20:04
Túrinn ræðst á Tourmalet
Það verður örugglega allt vitlaust í Frakklandsreiðinni á morgun,. fimmtudag - og keppni á alla kanta mikil. Andy Schleck segist ætla krækja aftur í gulu treyju forystusauðsins en það getur hann því aðeins að hann klifri hraðar en Alberto Contador upp Tourmalet tindinn.
Knaparnir í Frakklandsreiðinni fengu frí í dag,hvíldu lúin bein og söfnuðu kröftum. Á morgun er lokakaflinn í Pýrenneafjöllum en þar geta úrslit ráðist að verulegu leyti. Mörgum frægum garpinum hefur gengið illa í túrnum í ár og nú ætla einhverjir þeirra - ef ekki allir - að bæta fyrir það í keppninni upp á topp Tourmalet. Þar er um ógnar brekkur að fara og glíma knaparnir við súrefnisskort síðustu kílómetrana.
Fjallið hentar klifurfærni Schleck en búast má við að Contador lími sig við hann sem lengst til að missa hann ekki frá sér. Annars gefur hann honum færi á treyjunni gulu, en Contador hefur 8 sekúndna forskot á Schleck í keppninni um hana.
Áfanginn í dag er e.t.v. síðasta tækifæri Schleck til að reyna vinna því hann hefur hingað til reynst lakari í kappi við klukkuna, en slíka rúmlega 50 kílómetra keppni þurfa knaparnir að heyja á laugardag í höfuðstað rauðvínsframleiðslunnar, Bordeaux. Ég held túrinn ráðist á Tourmalet. Sá sem fyrstur kemur upp vinnur hann, sagði Schleck í gær.
Contador og Schleck eru taldir áþekkir í fjöllum en sá fyrrnefndi hefur hingað til verið betri í einstaklings tímatökum. En Contador telur það ekki sjálfgefið og segir að það væri hættulegt að afskrifa keppinaut sinn á laugardag. Ég óttast Schleck í tímatökunni af þeirri einföldu ástæðu að hann er frábær hjólreiðamaður - hann vann tímatökumeistaramót Lúxemborgar sem sannar að hann hefur bætt sig í faginu. Eitt er víst og það er að milli okkar mun eiga sér stað stórorrusta, sagði Contador.
Breski knapinn Bradley Wiggins varð fjórði í Frakklandsreiðinni í fyrra og við miklu var búist við af honum í ár. Það hefur ekki gengið eftir og hefur hann átt býsna mislukkaðan rúman hálfan mánuð í mótinu. Hann segist ætla að bæta úr þessu í keppninni upp á Tourmalet tind. Og er ekki einn um það.
Ætli Lance Armstrong freisti til dæmis sigurs? Það yrði ekki leiðinlegt. Alla vega mun margur franskur knapinn reyna láta ljós sitt skína því Nicolas Sarkozy forseti verður í bíl keppnisstjórans upp Tourmalet. Hvað sem öllu líður verður legið í sófanum fyrir framan sjónvarpið meðan knaparnir streða upp fjöllin. Og margslunginnar keppni notið í botn.
Bloggar | Breytt 22.7.2010 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)