Chirac á sakamannabekk

Sá sögulegi atburður á sér stað í Frakklandi í dag, að réttur verður settur yfir Jacques Chirac fyrrverandi forseta vegna meintrar spillingar í valdatíð hans sem borgarstjóri Parísar.

Hann er sakaður um að hafa misnotað almannafé með því að setja vini og pólitíska samstarfsmenn á launaskrá hjá borginni. Í ráðhúsinu störfuðu þeir ekki heldur í þágu flokks Chiracs og hans sjálfs, samkvæmt ákæruskjölum.

Hér er um sögulegan atburð að ræða þar sem Chirac er fyrsti fyrrverandi franski þjóðarleiðtoginn sem dreginn er fyrir rétt frá því Petain marskálkur var dæmdur fyrir landráð eftir seinna stríðið.

Og þótt aðalkærandinn, Parísarborg, hafi dregið sig út úr málinu hefur því verið haldið áfram. Borgin dró sig út úr málinu eftir að sættir tókust við borgarstjórann fyrrverandi.  

Í sættinni fólst að Chirac borgaði hálfa milljón evra úr eigin vasa og flokkur hans, UMP, 1,7 milljónir evra, vegna launagreiðslanna umdeildu.

Chirac hefur ávallt neitað því að hafa misfarið með fé borgarinnar. Það á að hafa gerst í valdatíð hans á árunum 1977 til 1995, eða áður en hann var kjörinn forseti Frakklands 1995.

Upphaflegur saksóknari málsins taldi sönnunargögn ekki duga til sakfellingar og vildi fella málið niður. Tvenn hagsmunasamtök tóku upp þráðinn, héldu málinu á lofti og hafa nú fengið því til leiðar komið, að af réttarhöldum verður.

Verjendur Chiracs hafa reynt að fá málið fellt niður og búist er við að fyrsti dagurinn fari í þrætur um formsatriði og frekari kröfur um niðurfellingu.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að heilsu Chiracs hafi hrakað mjög undanfarna mánuði. Eiginkona hans, Bernadette, hefur þó vísað á bug fregnum um að hann sé með Alzheimer-sjúkdóminn. Og ekki var annað að sá á sjónvarpsfréttum frá landbúnaðarsýningunni í París í febrúarlok að hann væri býsna ern.

Samkvæmt lögum er Chirac ekki skylt að sækja réttarhaldið en hann hefur engu að síður boðað komu sína í vitnastúkuna á morgun, þriðjudag. Verði hann sakfelldur gæti forsetinn fyrrverandi verið dæmdur í allt að 10 ára fangelsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Gústi. Kannski eyðir karlinn bara síðustu árunum í tukthúsinu í staðinn fyrir elliheimili.  Spurning hvort er verra í rauninni. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.3.2011 kl. 09:26

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæl Kolla

Ætl'ann sleppi ekki við kost upp á vatn og brauð því fróðir telja, að dómuir - verði hann á annað borð sakfelldur - yrði skilyrtur.

Ágúst Ásgeirsson, 7.3.2011 kl. 11:02

3 identicon

Sæll Gústi,

sko frakkana!  Hvort hann situr inni eða ekki er aukaatriði- skömmin er svo mikil ef hann verður sakfelldur. Ítalir ættu nú að taka frakka sér til fyrirmyndar og kveða Berlusconi í kútinn og inn í fangaklefa.  kveðja,Stenna.

Steinunn Ásgeirsdóttir (IP-tala skráð) 14.3.2011 kl. 02:47

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já skömmin. Til að hún virki þurfa menn að hafa sómatilfinningu. Veit ekki hvort það myndi duga á ítalska folann  en fangaklefi væri kannski nær handa honum :) kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.3.2011 kl. 12:24

5 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sælar tvær

Það fór svo, að með lögfræðiæfingum tókst verjendum Chiracs að fá réttarhaldinu frestað fram í júní. Því hefur hann ekkert þurft að mæta enn og dómari mun úrskurða í júní um áframhaldið! Þetta er svipað því sem beitt hefur verið í svonefndum Baugsmálum og máli níumenninganna - til að freista þess í lengstu lög að komast hjá réttarhöldum.

Spennan heldur sem sagt áfram.

Ágúst Ásgeirsson, 14.3.2011 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband