6.1.2012 | 18:07
Friðsamlegt hjónaband
Við grúsk í gömlum Mogga, frá þriðja áratug síðustu aldar, rakst ég á eftirfarandi klausu, sem er hin fróðlegasta. Annað hvort tragísk eða kómísk, allt eftir mælikvarða hvers og eins. Athyglisvert hjónaband annars þar sem hjónin talast ekki við í 18 ár.
Slíkt gæti sennilega ekki gerst á mínu heimili og ef eitthvað er þá er eins og konunni finnist ég stundum tala of mikið! En hér er klausan góða:
"Hjón í Michigan sóttu til yfirvaldanna um skilnað. Þau höfðu verið gift í 18 ár, en talast við aðeins fjórum sinnum allan tímann. Bóndinn var nú orðinn þreyttur á þögninni, og sótti um skilnað. Í byrjun hjúskaparsamverunnar hafði ungu hjónunum orðið sundurorða, og skipaði bóndi þá konu sinni að þegja, sem hún gerði ræðilega í 18 ár."
Það fylgdi svo sögunni, að dómarinn hafi ekki heimilað skilnað á þessum forsendum! Ekki fylgir fregnum hvert framhaldið var, hvort eitthvað hafi ræst úr og karl og kerling farið að tala saman!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.