Sakfelling Chiracs kom á óvart

Sakfelling Jacques Chiracs fyrrum forseta Frakklands kom flestum á óvart. Ekki síst þar sem saksóknari hafði fallið frá refsikröfu. Verjandi Chiracs sagði að dómurinn væri þungur en yrði þó tæpast til að draga úr þeirri virðingu sem hann sagði þjóðina bera fyrir forsetanum fyrrverandi.

Chirac krafðist sýknu af ákærunni en var sakfelldur fyrir spillingu og fyrir að hafa misnotað fé Parísarborgar í tíð sinni sem borgarstjóri í þágu stjórnmálaflokks síns, RPR. Var 21 flokksgæðingur á launum hjá borginni 1991-1995 án þess að vinna handtak í ráðhúsinu. 

Fréttaskýrendur velta því fyrir sér hvort dómurinn hafi einhverjar breytingar í för með sér. Eins og til dæmis hvort lög um friðhelgi þjóðhöfðingja í embætti verði afnumin. Hefðu þeirra ekki notið við væri málinu væntanlega lokið fyrir mörgum árum. Ýmsir höfðu verið dæmdir í tengslum við þetta mál en bíða þurfti eftir að Chirac léti af starfi til að hægt væri að taka á þætti hans.

Forsetinn fyrrverandi hélt því alltaf fram að hann hafi ekki vitað af greiðslunum en játaði pólitíska ábyrgð á þeim. Samdi hann við Parísborg fyrir 2-3 árum að bæta fyrir þær með tveggja milljóna evra peningagreiðslu. Borgaði hann 500.000 evrur úr eigin vasa og UMP-flokkurinn það sem á vantaði, 1,5 milljónir evra. Af þeim sökum sagði borgin sig að sínu leyti frá málinu. 

Stjórnmálamenn lýstu því að þetta mál væri eiginlega alltof gamalt til að fella dóm í því sem þennan. Fannst mér það ekki sérlega viðeigandi af forsætisráðherranum Fillon því með því skautaði hann framhjá þeirri staðreynd að Chirac var friðhelgur í 12 ár sem húsbóndi í Elyseehöllu.

Spurningin er svo hvort þessi fyrsta sakfelling fyrrverandi forseta Frakklands verði til að draga eitthvað úr pólitískri spillingu hér í Frakklandi. Af fréttum undanfarin ár mætti ætla hún hafa verið grasserandi allt fram á þennan dag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband