Gemsinn bannaður í frönskum grunnskólum

Farsímar verða bannaðir í frönskum grunnskólum og símafyrirtækjum verður gert skylt að bjóða upp á síma sem einungis er hægt að nota til að senda textaskilaboð. Þetta er gert til þess að lágmarka hættu á heilsutjóni barna. Sem stendur liggur einungis bann við símanotkun inni í skólastofum.  Þá kemur til álita að takmarka farsímanotkun franskra barna enn frekar. Áður en eitthvað verður ákveðið í þeim efnum verður beðið niðurstöðu franskra og alþjóðlegra rannsókna á meintri skaðsemi farsíma.

Til að takmarka hættu á heilaskaða af völdum rafsegulgeislunar frá símum verða símafyrirtækin sömuleiðis skylduð til að bjóða upp á hátalaralausa síma sem einungis  verður hægt að nota með því að tengja heyrnartól við þá.

Þetta er gert í framhaldi af sex vikna yfirlegu og umfjöllunar sérfræðinga um geislun frá farsímum,  þráðlausum fjarskiptabúnaði og fjarskiptasendum. Samtök sem áttu aðild að samráðsvettvangi um þetta efni vildu sum hver, að gengið yrði miklu lengra. Vildu þau banna börnum undir 14 ára aldri að meðhöndla farsíma og að útsendingartíðni fjarskiptamastra yrði takmarkaður stórlega auk þess sem staðsetning mastranna yrði takmörkunum háð.

Að sögn heilbrigðisráðherrans, Roselyne Bachelot, vildu stjórnvöld ekki grípa til aðgerða gegn möstrunum þar sem engar vísbendingar væru fyrir hendi um skaðsemi þeirra fyrir fólk og skepnur.

Tilraunir verða gerðar í þremur borgum til að kanna hvort draga megi að skaðlausu úr útsendingarstyrk senda. Fjöldi samtaka um land allt hefur krafist þess að sendimöstur nálægt skólum, sjúkrahúsum og heimilum verði tekin niður. Geislun frá þeim er iðulega sögð valda svefnleysi, höfuðverk,  þreytu og jafnvel krabbabeini.

Dæmi eru um að dómstólar hafi fallist á kröfur um að sendimöstur verði fjarlægð. Það veldur símafyrirtækjunum áhyggjum, ekki síst þar sem engar sannanir þykja vera fyrir hendi um meinta skaðsemi þeirra.

Til dæmis kom áfrýjunarréttur í Versölum á óvart er hann fyrirskipaði símafyrirtækinu Bouygues að rífa sendimastur í bænum Tassin-la-Demi-Lune, skammt frá Lyon. Fjölskyldur þar óttuðust um heilsu sína. Dómararnir féllust á að engar vísbendingar um hættu væru fyrir hendi. Þeir sögðu á móti, að það væri heldur engin trygging fyrir því að hættan væri ekki til staðar. „Óttatilfinning“ íbúanna í grennd mastursins væri því réttlætanleg. Úrskurðuðu dómararnir því þeim í hag samkvæmt varúðarreglunni svonefndu.

Vegna rannsókna sem þykja benda til að þráðlaus tækni geti verið skaðleg hefur víða um land verið slökkt á þráðlausu netsambandi, t.d. í bókasöfnum.punktar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þetta er hið fróðlegasta innlega hjá þér, Jón Frímann. Ég vona að þú teljir ekki að ég sé að leggja dóm á þessi mál. Er að eins að segja frá þessari ákvörðun og hvers vegna hún er tekin. Það fer ekki á milli mála, að skoðanir eru skiptar um hvort farsímar og þráðlaus tæki geti verið skaðleg. Hér virðast menn vilja hafa allan varann á.

Ég minnist þess að undanfarin 10-20 ár hafa komið reglulega fram raddir þess efnis að gemsar séu stórhættulegir. Geti hreinlega brætt heilann!!! Margt af því hefur verið mjög hysterískt, satt að segja. Og svo eru hinir sem segja engar hættur á ferðinni.

Ágúst Ásgeirsson, 28.5.2009 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband