Þurfa leiðtogar að veikjast til að öðlast stuðning?

Þurfa þjóðarleiðtogar eða háttsettir ráðamenn að veikjast til að ná augum og eyrum landa sinna og öðlast aukins stuðnings þeirra? Þannig hef ég spurt sjálfan mig eftir að ný könnun sýnir mikla fylgisaukningu við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Yfir hann leið á dögunum er hann skokkaði á Versalasvæðinu að morgni sunnudagsins 26. júlí sl.

Sarkozy var fluttur á spítala en útskrifaður daginn eftir. Honum var fyrirskipað að hvílast. Er hann nú í sumarleyfi á landareign tengdaföður síns á suðurströnd Frakklands. Atvikið hefur líklega orðið til þess að hann hefur hægt á líkamsrækt sinni.  Að sama skapi virðist það hafa haft áhrif á vinsældir hans. 

Fjórum dögum seinna kannaði CSA-stofnunin afstöðu kjósenda til Sarkozy. Reyndust stuðningur við hann hafa aukist um 12 prósentustig frá samskonar könnun í maí. Sögðust 53% ánægð með frammistöðu forseta síns en 41% í maí. Í nýjustu könnuninni sögðust aðeins 38% óánægð með frammistöðu Sarkozy í starfi, miðað við 55% fyrir þremur mánuðum. Munar þar 17%.

Spurt var álits á líkamsrækt forsetans og skiptist þátttakendur í tvennt í afstöðunni til þess. Svöruðu 51% því til að hann ætti að hlýða læknum sínum og nota sumarleyfið til að hvíla sig rækilega. Hinn helmingurinn, eða 49%, sagðist ekkert hafa á móti íþróttaiðkun Sarkozy.

Spurt var einnig um afstöðu til persónuleika forsetans og kom hann betur út á öllum sviðum en í síðustu könnun. Þannig sögðu 63% hann viðfelldinn náunga og 80% sögðu hann duglegan og kjarkmikinn. Loks sögðu 90% hann kraftmikinn og framkvæmdasaman. Helmingurinn, eða 50%, sögðu hann í nánum tengslum við þjóðina en þeirrar afstöðu voru aðeins 36% í maí.  

Fjölmiðlar fengu vissa ábendingu úr könnuninni, því 60% aðspurðra sögðu þá hafa gert alltof mikið úr yfirliði Sarkozy. Voru sjónvarpsstöðvar m.a. með beinar útsendingar frá lóð sjúkrahússins sem hann dvaldist á í sólarhring.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband