Hörundslitur skiptir ekki máli

Christophe Lemaitre Evrópumeistari í 100 metra hlaupi

Menn þurfa ekki að vera svartir til að sigra í spretthlaupi. Það sannaði franski stráklingurinn og nýstúdentinn Christophe Lemaitre með eftirminnilegum hætti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í gærkvöldi. Hann er fyrsti hvíti maðurinn til að hlaupa 100 metra á innan við 10 sekúndum.

Franskir íþróttamenn; tennisleikarar, hjólreiðamenn og nú Lemaitre, hafa heldur betur lyft brúninni á franskri þjóð eftir skandalann á HM í fótbolta. Fótboltamennirnir brugðust þjóð sinni ærlega þar og sitja um langan aldur í skammarkróknum. Stórstjörnurnar sjálfhverfu sem þar áttu í hlut eiga ekkert sameiginlegt með hjólreiðagörpunum sem glöddu landa sína í Tour de France og Lemaitre.

Christophe Lemaitre er hálfgert náttúrubarn og gjörsamlega laus við að vera uppfullur af sjálfum sér, eins og t.d. fótboltamennirnir Henry, Evra, Anelka og Ribery, svo einhverjir þeirra séu nefndir. Svo óhönduglega tókst þeim til á HM - innan vallar og ekki síður utan - að enginn 23 sem þangað voru sendir verða í næsta landsliði Frakklands, sem nýi landsliðseinvaldurinn velur senn til keppni við Norðmenn. Nei, þeir verða áfram í skammarkrók, og sama er mér því hér í landi er fullt af efnilegum strákum sem leysa munu þá marga af hólmi. 

Lemaitre er Evrópumeistari unglinga frá í fyrra og heimsmeistari unglinga frá í hitteðfyrra. Á EM unglinga í Novi Sad í fyrra setti hann Evrópumet unglinga, hljóp á 10,04 sek. Hann á franska metið í 100 metra hlaupi (9,98 sek) og jafnaði í sumar metið í 200 metrum, sem er 20,16 sek. Hann er nýorðinn tvítugur, fæddur 11. júní árið 1990 í Annecy í Suður-Frakklandi.

Sigur hans á EM fullorðinna á ólympíuleikvanginum í Barcelona í gær verður lengi í minnum hafður. Hann hljóp á 10,11 sekúndum gegn 1 m/s mótvindi. Besti tími hans er 9,98 sek. frá franska meistaramótinu í sumar. Hann er fyrsti Evrópumeistari Frakka í 100 metra hlaupi frá því 1962 er Claude Piquemal varð meistari. Árið 1990 var Daniel Sangoumaen nálægt því að vinna en varð annar.

Lemaitre hefur ekki leiðst þau tíðindi sem hann fékk eftir sigurinn, að uppáhalds fótboltalið hans, Olympique Marseilles, varð meistari meistaranna í Frakklandi með sigri á Paris SG í gærkvöldi. Hann er mikill unnandi liðsins og mun herbergi hans á heimili unga mannsins sprettharða í Aix-le-Bains vera þakið myndum af OM og félagsskrauti.

Hlaupið og aðdragandi þess var spennandi og Lemaitre hélt frábærri einbeitingu. Lét það ekki raska ró sinni þótt fyrirfram væri hann talinn sigurstranglegur. Það er einmitt sagður sérstakur hæfileiki hans að einangra sig frá umhverfinu í einbeitingunni. Sér hann þá ekkert né heyrir nema rásblokkina, brautina framundan og marklínuna.

Í ræsingunni virtist Lemaitre svifaseinni en hinir. En fann fljótt sinn takt, dró keppinautana uppi og sigldi svo fram úr á síðustu 30 metrunum. Tók á af öllum sálarkröftum, leit hvorki til hægri né vinstri, heldur beint áfram og gaf ekkert eftir fyrr en yfir marklínuna var komið. Svo mikið var hann í sínum eigin einbeitingarheimi - einangrunarkúlu eins og hann orðar það - að hann áttaði sig ekki á að hann hefði sigrað fyrr en eftir hlaupið.

Til að kóróna kvöldið hreppti Martial Mbandjock bronsverðlaunin meðgóðu „dippi“ á hárréttu augnabliki. Varð hann nefinu og skeggbroddunum á undan tveimur sem fengu sama tíma.

Maður bíður spenntur eftir að sjá Lemaitre og félaga í 4x100 metra boðhlaupinu og 200 metra hlaupinu. Undanrásir í þeirri grein hefjast í dag. Þegar hann var spurður í gærkvöldi hvort hann ætlaði ekki að fagna titlinum fram á nótt svaraði hann hiklaust: „Nei, nú fer ég beint í bælið, að sofa“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Er sá hvíti ekki á EPÓ eða álíka lyfjum. Hann "hyperventíleraði" svo mikið eftir hlaupið, að ég hélt að hvíti unghaninn væri að fá hjartaáfall.

Öll komum við frá Afríku, svo hlaup og hopp liggja í genunum.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.7.2010 kl. 10:20

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Held þú getir reitt þig á að engin brögð séu í tafli. Hann á eftir að veita meiri gleði þessi einlægi og yfirlætislausi ungi Frakki. 

Ágúst Ásgeirsson, 29.7.2010 kl. 20:39

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég ætla nú heldur ekki að halda neinu fram í þessum efnum. Ég varð bara svo undrandi á því að hann ynni, þó ég hefði í gamni sagt við son minn 7 ára, að þessi hvíti frá Frakklandi myndi vinna. Kannski var hjartað í Lemaitre að gefa sig af eintómri gleði. Ég sá frá verðlaunaafhendingunni, sem sýnd var hér í Danmörku í kvöld, að hann var búinn að ná sér.

Það er þó furðulegt að sjá hvernig hlaupastíll hans og minni vöðvamassi hefur skotist fram úr vöðvabúntunum frá Afríku. Í hvaða sæti kæmi Christophe ef hann atti kappi við kjötlistaverkin frá BNA? Fýsíólógiskt er þessi Frakki mjög áhugaverður, og gæti verið eftir að gera góða hluti ef hann fær ekki einhvern kvilla eins og meirihluta frjálsíþróttamanna.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.7.2010 kl. 22:13

4 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Má ég samt minna ykkur piltar á því að Lemaitre er eins og smákrakki (a.m.k. ennþá) þegar hann hleypur á móti strákunum frá Reggie-eyjunni.

Annars er grjótfúlt að fá ekki að sjá Em í beinni :(

Guðmundur St Ragnarsson, 29.7.2010 kl. 23:56

5 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Gústi. Gaman að lesa þennan pistil og auðvelt að hrífast með hrifningu þinni. Auðséð að fjallað er um málið af þekkingu og reynslu.

Já það er fýlt að fá ekki að sjá þetta í beinni eins og GR segir.

Fótboltastelpurnar frönsku tóku svo okkar stelpur í dag... :) kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 21.8.2010 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband