Borgaði milljónir svo hundurinn gæti flogið á fyrsta farrými

Ekki er öll vitleysan eins, kom mér í hug er ég las um sextuga ísraelska konu sem borgaði um 30.000 evrur, vel á sjöttu milljón króna, svo hún gæti haft kjölturakka sinn með sér á fyrsta flugfarrými frá París til Tel Aviv.

Af hálfu frúarinnar, sem sögð er heita Rivkah, kom ekki til greina að hvuttinn Orchuk yrði settur í búr í farangurslest þotunnar. Þar gæti hann orðið einmana og óttasleginn, sagði konan. Af hálfu El Al félagsins kom ekki til greina að hundurinn, sem er af boxerkyni, lægi í kjöltu hennar í fluginu.

Heldur skyldi hann vera í búri á fyrsta klassa, en til að svo mætti verða varð að fjarlægja nokkur sæti til að koma því fyrir. Já, og frúin borgaði einnig undir dýralæknir sem fylgdist með heilsufari Orchuk þær fjórar klukkustundir sem hann var skýjum ofar.

"Ég vildi hafa barnið mitt hjá mér í fluginu svo ég gæti hlúð að því," sagði Rivkah. Hundinn hafði hún alið upp frá því hann kom í heiminn fyrir rúmum átta árum og samband þeirra eins og móður og barns.

"Hann er barnið mitt, ekki hundur. Og hann verðskuldar það besta," bætti hún við. Og sagðist ekki sjá eftir uppsettu verði fyrir flutninginn.

Talsmaður flugfélagsins El Al segir félagið aldrei hafa staðið frammi fyrir beiðni sem konunnar. "Eftir að hún útskýrði hið sérstaka samband sitt við hund sinn og kvaðst fúslega myndu borga aukalega fyrir það féllumst við á beiðni hennar," sagði talsmaðurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er dekrað við fólk sem á fullt af peningum en ekki við þá sem eiga þá ekki.

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.8.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband