Frábær framlenging á sumrinu

Veðurspá fyrir 30. september 2011Undanfarnar vikur höfum við notið þess sem dags daglega gengur undir heitinu „indjánasumar“, eða óvenjulegra hausthita. Reyndar eru þeir ekki svo óvenjulegir því þeir hafa næstum verið regla frá því ég fluttist hingað 2005. Hitinn hefur þó verið meiri í ár og fyrr í vikunni var meðalhiti september orðinn hærri en fyrir júlí.

Já, og heitari september hafði ekki mælst frá árinu 1900 eða í 111 ár er vika var eftir af mánuðinum. Undanfarnar vikur hefur himinn verið skafheiður og sólin því skinið án afláts. Hitinn farið í 28°C yfir hádaginn en sigið rétt niður fyrir 20 upp úr miðnætti. Í birtingu hafa mælar svo stigið ört upp á við. Það verður í fyrsta lagi um miðja næstu viku sem eitthvað mun undan láta og veður breytast - og sumaraukinn góði mun undan víkja.

Þó margt sé gott við stormsamar sunnanáttir eða norðanbál þá kann ég sennilega betur við blíðviðrið franska, alla vega nú orðið. Ekki síst fyrir hin góðu heilsufarslegu áhrif þess. Þannig hefur mér ekki orðið misdægurt í sex ár. Ekki einu sinni fengið kvef í um 2.300 daga a.m.k.

Ég læt fylgja hér með spákort dagsins fyrir Frakkland allt.

p.s. Var að horfa á hádegisfréttir, kl. 13. Þar hafði spá dagsins tekið breytingum og gert ráð fyrir 30°C hér hjá okkur í Rennes, en ekki 26°.

 

 

 


Þolinmæði og 30.000 kaloríur

Í 400 km forkeppni frá Avranches í lok maí.

Þá er þrautin mikla framundan, hjólreiðin frá París til bæjarins Brest á vesturodda Frakklands og til baka. Alls 1230 kílómetrar sem ég verð að klára á rúmlega þremur og hálfum sólarhring. Hef að hámarki 90 stundir til verksins. Í reiðinni taka 5225 aðrir frístundahjólarar úr öllum heimshornum. Ballið byrjar undir kvöld á sunnudag.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er 1230 km eða álíka og þjóðvegur 1 á Íslandi. Vestari helming leiðarinnar kannast ég ágætlega við; tók þátt í 600 km keppni á þeim hluta leiðarinnar í hitteðfyrra. Og svo ók ég austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í fyrrasumar.

Hjólað verður um sveitavegi þar sem umferðarþungi er ekki verulega íþyngjandi og því er leiðin bæði krókótt og afar öldótt. Til dæmis er um 365 brekkur að fara, stuttar sem langar, sumar mjög brattar og aðrar sem eru nokkrir kílómetrar á lengd. Því segir það sig sjálft að ferðhraði verður ekki eins og á venjulegum dögum, heldur mun minni þar sem maður er að jafnt nótt sem nýtan dag.

Klifra 10-11 þúsund metra upp 375 brekkur

Samkvæmt útreikningum lækna- og næringarfræðinga, sem m.a. hafa tekið sjálfir þátt í reiðinni, ætti ég að brenna á bilinu 30 - 40 þúsund kaloríum á leiðinni. Á 90 klukkutímum. Er þá miðað við að 600 kaloríur þurfi fyrir hvern hjólaðan klukkutíma. Segir sig sjálft að maður verður að innbyrða nóg af orku á leiðinni og drekka býsnin öll af vatni og orkudrykkjum.

Þetta verður enginn hægðarleikur því til dæmis klifrar maður 10-11 þúsund metra upp allar brekkurnar. Þar sem maður endar á sama stað kemur heildar hæðarbreytingin út á núlli en gallinn er sá að niður brekkurnar endurheimtir maður ekki orkuna sem fór í að stíga hjólið upp þær!

Hér er um að ræða mikla prófraun á líkamlegt atgervi og ekki síður hið andlega því það mun reyna á viljastyrk; kjark og hugrekki að fara alla leið fram og til baka innan tímamarka. Árið 2007 rigndi lengstan part leiðarinnar en nú bjóða veðurspár aðallega upp á hitabylgju! Vonandi skúrar eitthvað til að fríska loftið.

Ég hef undirbúið mig nokkuð vel og farið gegnum 10 svona röll á bilinu 200-600 km undanfarin tvö ár og hef hjólað 50 þúsund kílómetra síðustu fjögur árin. Í 400 km ralli í lok maí nam klifrið til að mynda rúmum 4200 metrum sem er hlutfallslega ögn meira en í P-B-P.

„Ég þori, get og vil“

Geng þó til leiks af auðmýkt gagnvart verkefninu. Þar mun fyrst og fremst reyna á þolinmæði til að halda aftur af sér og brenna ekki of hratt fyrsta áfangann. Til að heiðra minningu Unnar Stefánsdóttir, nýlátins gamals félaga úr frjálsíþróttunum og samstjórnarmanns í Íþrótta- og ólympíusambandinu (ÍSÍ), fer ég til móts við hina miklu áskorun með kjörorð umbótanefndar ÍSÍ í kvennaíþróttum; „Ég þori, get og vil“. Í von um að það færi mér heill á leiðinni hef ég sett bæði merki ÍSÍ og Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR) á hjálminn minn og íslenski fáninn trónir á stelli hjólsins.

Ég áætla að vera eins og 60 stundir að hjóla en hef þá 30 tíma upp á að hlaupa til að borða, hvílast og mæta á kontrólstöðvar. Á leiðinni eru 14 slíkar sem við vitum um og tvær duldar – önnur á útleið hin á heimleið – sem við hittum ekki á nema rata rétta leið! Það getur tekið drjúga stund að fara í gegnum kontrólin, fá stimpil í ferðbókina og klára sig af vegna fjöldans.

Minn rástími er áætlaður klukkan 18 á sunnudag en ræst er í 400 manna hópum með 10-15 mínútna millibili til að mannskapurinn dreifist aðeins. Fer eftir því hvar í þeim ég lendi hvort brottför verður akkúrat klukkan sex eða eitthvað seinna.

A.m.k. 450 km í fyrsta áfanga

Stefnan er að fara vel á fimmta hundrað km í fyrsta áfanga áður en maður tekur sér hvíld og fleygir sér útaf í 5-6 tíma. Ná a.m.k. til Loudeac á Bretaníuskaga en þangað eru 450 km. Jafnvel komast lengra, eða 493 km til Saint-Nicolas-dePelem. Sem sagt helst að hjóla framundir næsta myrkur, þ.e. vera að í rúman sólarhring í fyrstu lotu. Það er planið og síðan ræðst það af framvindunni með frekari hvíldir en vonandi næ ég annarri álíka langri kríu sólarhring seinna eða svo. Og hafi ég nógan tíma upp á að hlaupa gríp ég þriðja tækifærið til að dotta agnarögn.  Ég mun í bakpoka og smátösku á bögglabera hafa a.m.k. tvennan klæðnað til skiptana þar sem áð verður og vonandi kemst maður í sturtu þar!

Þetta verður í fyrsta sinn sem ég legg upp í þessa vinsælu reið. Hún fer fram á fjögurra ára fresti og dregur til sín þátttakendur úr öllum heimsálfum. Fór fyrst fram árið 1891 og varð kappi að nafni Charles Terront fyrstur af um 100 þátttakendum. Verð ég innan um menn – og konur – sem hafa tekið jafnvel mörgum sinnum þátt.

Sagan segir að París-Brest-París reiðin hafi verið hvati þess að stofnað var til Frakklandsreiðarinnar miklu, Tour de France, árið 1903. Þessum viðburðum tveimur verður ekki jafnað saman en báðir eiga vinsældum að fagna hér í Frakklandi og munu íbúar meðfram leiðinni t.a.m. stilla sér upp meðfram leiðinni og hvetja þátttakendur. Þá munu húsfrúr víða dekka borð út á stétt og bjóða hjólurum upp á hressingu, svo sem kaffi og bakkelsi. Maður verður á köflum að heiðra þær fyrir hugulsemina og snerta á kræsingunum.

Fyrirmynd að Tour de France

Til  keppninnar 1891 skráðu sig 293 karlar og sjö konur en aðeins 209 mættu þó til leiks. Helmingur hafði fallið úr leik áður en komið til Brest, því þar sneru 106 til baka og komust 100 þeirra alla leið í mark í París. Terront mun hafa verið 71:35 stundir á leiðinni en meðaltími allra sem skiluðu sér í mark var 10 dagar! 

Framkvæmd reiðarinnar er ekkert smámál og eigum við það að þakka um 15 þúsund sjálfboðaliðum að þetta getur allt farið fram. Á laugardag verð ég að mæta til Parísar í skoðun með hjólið þar sem gengið verður úr skugga um að búnaður þess, ljós, bremsur o.fl. standist kröfur. Til dæmis má ekki vera með handahvílur eins og á þríþrautarhjólum og bremsur verða vera bæði aftan og framan. Og í myrkri er skylda að skrýðast endurskinsvesti.

Aðeins fleiri voru skráðir til leiks 2007 en í ár og ætli kreppa á alþjóaðvísu eigi ekki hlut að máli. Nú eru 5225 keppendur en voru 5311 fyrir fjórum árum, þar af útlendingar frá 45 löndum í meirihluta eða 3015. Þar af voru 606 frá Bandaríkjunum 387 frá Þýskalandi, 367 Ítalíu, 334 frá Bretlandi, 206 Spáni, 182 Danir, 123 Ástralir, 116 frá Kanada, 112 Japanir, 87 Svíar og 24 Norðmenn. Alls tóku 353 konur þátt, þar af 136 franskar.   Meðalaldurinn 2007 var 49,7 ár og er sagður 50 nú. Með mín 59 ár er ég því í efri hlutanum en þess má geta, að meðal þátttakenda eru 16 karlar 75 ára og eldri. Þeir geta verið seigir, ég flaut til að mynda með sex félögum gegnum 200 km forkeppnisreið fyrr á árinu og sá harðasti var sá elsti, 78 ára. Hann verður með í P-B-P.

Heimasíða París-Brest-París, bæði á ensku sem frönsku.

Skemmtileg mynd af leiðinni, hæðarprófílar einstakra áfanga og hæðargraf allrar leiðarinnar. Þarna segir að heildarklifur sé 9078 metrar. Hún er fengin af kortavefnum Openrunner.com en mælingar manna með GPS-tækjum hafa sýnt mun hærri tölur, milli 10 og 11 þúsund metra.  

Önnur mynd af leiðinni.

 

 

 

 


Maður að mínu skapi

Wilkins er maður að mínu skapi. Fyrir þessu hef ég lengi talað varðandi íslensk lið t.d. Það er hallærisleg ráðstöfun að reka alltaf þjálfarann. Eftir sitja menn með sama ódugandi tapliðið. Og oft hefur ráðstöfunin litlu breytt. Mér finnst full ástæða til að prófa nýjar leiðir - þ.e.a.s. reka liðið en ekki þjálfarann.Það er tilraunarinnar virði. Bara spurning um kjark. Aldrei hefði þýtt fyrir mig að reka þjálfara minn í gamla daga ef ekkert gekk. Þeir kepptu ekki, heldur ég.


mbl.is Wilkins: Skiptið um leikmenn en ekki stjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti áfangi að baki

Höfundur í hópi þátttakenda rétt fyrir start í l'Hermitage.Þá er fyrsti áfanginn að þátttökurétti í París-Brest-París reiðinni í sumar að baki. Hjólaði í 200 km forkeppni frá l'Hermitage sl. laugardag ásamt 280 öðrum. Fínt veður fyrstu 120 km en síðan tók við rigning næstu tvo tímana eða svo. Hún var ekki svo slæm en eftir því sem vegurinn blotnaði spýttist meira yfir mann frá meðreiðarmönnum. 

Hann stytti upp síðustu 25 km en vegurinn þornaði ekki jafn harðan. Og það bætti gráu ofan á svart að nokkuð var um mold hér og þar á veginum sem borist hafði af ökrum vegna bústarfa í sveitum Bretaníuskagans. Þessu jós yfir mann en það er bara hluti af tilverunni og ekkert til að kveinka sér yfir.

Ekki var um annað að ræða en skipta svo fljótt sem verða mátti um föt eftir komu á leiðarenda þar sem manni kólnaði fljótt rennvotum. 

Það var skemmtileg stemmning á svæðinu er hópurinn lagði af stað eiginlega um leið og kirkjuklukkan sló átta að morgni. Leiðin lá frá l'Hermitage, sem er útborg frá Rennes, norðnorðvestur niður að sjó við St. Cast og þaðan haldið meðfram ströndinni um Frehel, Erquy og Planeuf-Val Andre, allt ægifagrar og sjarmerandi slóðir. Fyrsta tékk var eftir 75 km í St. Lormel en þar var minn hópur eftir 2 og 1/2 tíma, og hið næsta í Port Dahouët í Planeuf-Val Andre eftir um 115 km. Þar stoppuðum við í röskan hálftíma og nærðumst.

Því næst lá leiðin suðsuðaustur á bóginn til baka og nú hafði vindinn hert og byrjaði að rigna, allt samkvæmt veðurspám frá því daginn áður. Því kom ekkert á óvart og ekki um annað að ræða en halda áfram með jákvæðu hugarfari. Slóst við brottför í hóp með 5 hjólurum frá Pipriac og lengst af vorum við í samfylgd með 20-30 öðrum. Það er léttara og ekki síst gegn veðri því þá skiptumst við nokkuð á að leiða og kljúfa vindinn.

Til baka kom ég upp úr klukkan fjögur með mínum mönnum og um 30 öðrum, flestum frá hjólafélaginu í St. Meen-le-Grande þaðan sem einn frægasti hjólreiðagarpur Frakka er, Louison Bobet. Alls var ég á baki í rúma sjö klukkutíma og undirbúningurinn hefur verið réttur og góður því þetta var ekki erfiðara en að drekka vatn. Mér leið vel alla leið og fann aldrei fyrir þreytu. Hún var heldur ekki erfið, klifur samtals allan hringinn t.a.m. aðeins tæplega 1300 metrar.

2011-pbp.jpgÞað var líka til að lyfta andanum að í hópnum sem ég gekk til liðs við var einn 74 ára og sá var sprækur sem unglingur. Feikna vel á sig kominn sá og síbrosandi. Þetta var honum engin raun og hann hefur nokkrar París-Brest-París reiðar að baki. Ég uppgötvaði sem sagt að maður verður aldrei of gamall til að hjóla, ef lundin er létt en það verður hún eiginlega sjálfkrafa í svona samkomum.

Þá er sem sagt fjórðungur af fullri þátttökuheimild í París-Brest-París í höfn. Og reyndar gott betur því ég tryggði mér forskráningu og þar með forgang með þátttöku í 200 km, 300 km og 400 km forkeppnum í fyrra. Engu að síður verður maður að fara í gegnum öll stigin fjögur aftur, og því eru 300, 400 og 600 km eftir. Tek 300 um miðjan apríl, 400 líklegast í byrjun maí og síðan 600 um miðjan júní. Boðið er upp á þessi úrtökumót um allt land en ég læt mér nægja heimaslóðir á Bretaníuskaganum. Þó eru líkur á að ég fari til borgarinnar Laval í 400 km en þangað er nú ekki nema um klukkustundar akstur. Sjálf reiðin frá París til Brest og til baka, um 1250 km, fer svo fram síðla í ágúst. 

Hér má sjá myndband sem gefur innsýn í frábæra stemmningu rétt fyrir og í upphafi reiðarinnar.

Þá er hér kort af leiðinni

Hér er svo annað vídeó, tekið þegar menn eru að koma aftur í hús við heimkomu og fá sér hressingu að því loknu. Þar kemur fram að um 80 séu komnir í mark af 281 og var hópurinn sem ég var með þá löngu kominn.

 

 


Chirac á sakamannabekk

Sá sögulegi atburður á sér stað í Frakklandi í dag, að réttur verður settur yfir Jacques Chirac fyrrverandi forseta vegna meintrar spillingar í valdatíð hans sem borgarstjóri Parísar.

Hann er sakaður um að hafa misnotað almannafé með því að setja vini og pólitíska samstarfsmenn á launaskrá hjá borginni. Í ráðhúsinu störfuðu þeir ekki heldur í þágu flokks Chiracs og hans sjálfs, samkvæmt ákæruskjölum.

Hér er um sögulegan atburð að ræða þar sem Chirac er fyrsti fyrrverandi franski þjóðarleiðtoginn sem dreginn er fyrir rétt frá því Petain marskálkur var dæmdur fyrir landráð eftir seinna stríðið.

Og þótt aðalkærandinn, Parísarborg, hafi dregið sig út úr málinu hefur því verið haldið áfram. Borgin dró sig út úr málinu eftir að sættir tókust við borgarstjórann fyrrverandi.  

Í sættinni fólst að Chirac borgaði hálfa milljón evra úr eigin vasa og flokkur hans, UMP, 1,7 milljónir evra, vegna launagreiðslanna umdeildu.

Chirac hefur ávallt neitað því að hafa misfarið með fé borgarinnar. Það á að hafa gerst í valdatíð hans á árunum 1977 til 1995, eða áður en hann var kjörinn forseti Frakklands 1995.

Upphaflegur saksóknari málsins taldi sönnunargögn ekki duga til sakfellingar og vildi fella málið niður. Tvenn hagsmunasamtök tóku upp þráðinn, héldu málinu á lofti og hafa nú fengið því til leiðar komið, að af réttarhöldum verður.

Verjendur Chiracs hafa reynt að fá málið fellt niður og búist er við að fyrsti dagurinn fari í þrætur um formsatriði og frekari kröfur um niðurfellingu.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að heilsu Chiracs hafi hrakað mjög undanfarna mánuði. Eiginkona hans, Bernadette, hefur þó vísað á bug fregnum um að hann sé með Alzheimer-sjúkdóminn. Og ekki var annað að sá á sjónvarpsfréttum frá landbúnaðarsýningunni í París í febrúarlok að hann væri býsna ern.

Samkvæmt lögum er Chirac ekki skylt að sækja réttarhaldið en hann hefur engu að síður boðað komu sína í vitnastúkuna á morgun, þriðjudag. Verði hann sakfelldur gæti forsetinn fyrrverandi verið dæmdur í allt að 10 ára fangelsi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband