Fylgismælendum mistókst

Sarkozy og HollandHörð gagnrýni kom fram strax í gærkvöldi á stofnanir sem fást við mælingar á fylgi vegna forsetakosninganna í Frakklandi. Þeim hefur skjöplast og sitja þær nú uppi með ásakanir um hafa reynt að hafa áhrif á kjósendur með „plöntuðum“ niðurstöðum, eins og starfsfræðsluráðherrann Nadine Morano hélt til dæmis fram á kosningavöku í sjónvarpi.

 Mælingar á fylgi frambjóðenda höfðu verið gerðar ótt og títt undanfarið hálft ár. Allar sem ein og á öllum stigum vanmátu þær fylgi Marine Le Pen, frambjóðenda Þjóðfylkingarinnar, öfgaflokks hægrimanna. Hins vegar ofmátu þær undanfarna tvo mánuði eða svo fylgi vinstri öfgamannsins Jean-Luc Melenchon.

Einnig voru útgönguspár þessara stofnana nokkuð fjarri hinni endanlegu niðurstöðu kosninganna. Þær gerðu ráð fyrir hærra kjörfylgi Francois Hollande en raun varð á og flestar að Nicolas Sarkozy hlyti verri útkomu en niðurstaðan sýnir.

 Fylgi Þjóðfylkingarinnar var einnig vanmetið 2002, þegar stofnandi hennar og faðir núverandi frambjóðanda, Jean-Marie Le Pen, komst í aðra umferð gegn Jacques Chirac. Hlaut hann 16,86% í fyrri umferðinni eða nokkru hlutfallslega minna en Marine. Varð fylgi hans 3,3 prósentustigum meira en síðustu fylgiskannanir, tveimur dögum fyrir kjördag, sýndu.

Hlutur Marine Le Pen var 18,2% þegar aðeins var eftir að telja 1,15 milljónir atkvæða sem greidd voru utan Frakklands og áhrifasvæða þess. Er það einnig talsvert meira en spáð var því síðustu fylgismælingar bentu til að hún fengi milli 14 og 16% atkvæða. Skekkjan er því sem svarar 13-23%. Og frambjóðandi flokksins hefur aldrei hlotið jafn mikið fylgi og hún.

Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstrifylkingarinnar, veðjaði á að hann myndi leggja Le Pen að velli. Kannanir höfðu á stundum undir það síðasta sýnt hann með sama fylgi eða meira en hún, allt að 15%. Niðurstaðan varð hins vegar 11,1%. Þegar hann hóf kosningabaráttu sína í fyrrahaust mældist fylgi hans aðeins 5%. Melenchon situr á Evrópuþinginu – eins og Marine Le Pen – en þau eiga það sameiginlegt að rækta starf sitt þar verr og mæta sjaldnar til þings en flestir sem þar sitja.

Kjörsókn miklu meiri en spáð var

Við þetta má svo bæta, að könnunarfyrirtækin hin mörgu spáðu því að kjörsókn yrði tæpast nema kringum 60%, á þeirri forsendu að franskur almenningur bæri hverfandi traust til stjórnmálamanna og teldi aukinheldur að engu skipti hver með völdin færi, pólitíkusarnir væru allir eins. Reyndin varð önnur, þrátt fyrir frí og leiðinda rigningarveður streymdu Frakkar á kjörstað, kjörsókn var um 79,5%.

 


Aðeins 45 daga umhverfis jörðina

Skúta Peyron á hraðferð í metsiglingunni.

Frakkar eru miklir sægarpar og annálaðir skútusiglarar, það vita áhugamenn um siglingasport.

Um helgina setti einn slíkur, Loïck Peyron, heimsmet í viðstöðulausri siglingu umhverfis jörðina; var aðeins 45 daga, 13 stundir, 42 mínútur og 53 sekúndur á leiðinni.

Með þessu hlýtur Peyron Jules Verne til varðveislu en um hana hefur verið keppt frá og með 1992. Var ævintýraskáldsaga Verne, „Umhverfis jörðina á 80 dögum“, hvati að metsiglingatilraunum.

Frá því keppnin hófst hefur hnattsiglingametið verið bætt átta sinnum. Metið sem Peyron bætti var 48 dagar, sjö stundir og 45 mínútur, en það setti annar Frakki, Franck Cammas, í hitteðfyrra.  

Peyron, 4ði f.h., og áhöfn fagna í BrestSjómennska er fjölskyldu Loïck Peyron í blóð borin því bróðir hans, Bruno Peyron, varð fyrstur til að vinna Jules Verne styttuna, árið 1993. Þá sigldi hann umhverfis jörðina á 79 dögum, 6 klukkustundum og 16 mínútum.

Tvisvar missti hann metið en endurheimti í bæði skipti, fyrst árið 2002 er hann var 64 daga rúma á siglingu og 2005 er hann lagði leiðina að baki á 50 dögum, 16 stundum og 20 mínútum. Nú segist hann tilbúinn að gera atlögu að met á næsta ári, 2013, með yngri bróður sínum.  

Loïck Peyron vann afrekið á risaskútunni Banque Populaire V sem er þríbytna og lætur nærri að meðalhraðinn á siglingunni hafi verið 50 km/klst. Stóðst skútan álagið einstaklega vel en á henni var 14 manna áhöfn. Hún er 40 metra löng og getur náð rúmlega 110 km/klst hraða. Til samanburðar var þríbytna Cammas, Groupama 3, 31m50 metrar.  Og skúta Bruno á fyrstu metsiglingunni 25,65 metrar.

Ferillinn sem Peyron sigldi reyndist 53.172 km langur en Cammas fór styttri leið 2010 eða 52.824 km og bróðirinn Bruno enn skemmri spöl 2005, eða 49.990 km.

Um 5000 manns fögnuðu í mígandi rigningu á kajanum í Brest á vesturodda Frakklands er skútan sigldi í höfn. Margar skútur og bátar fylgdu henni síðasta spölinn. Í áhöfninni var einn Breti, Brian Thompson, sem hefur með þessu siglt fjórum sinnum umhverfis jörðina án viðkomu á leiðinni. 

 


Friðsamlegt hjónaband

Við grúsk í gömlum Mogga, frá þriðja áratug síðustu aldar, rakst ég á eftirfarandi klausu, sem er hin fróðlegasta. Annað hvort tragísk eða kómísk, allt eftir mælikvarða hvers og eins.  Athyglisvert hjónaband annars þar sem hjónin talast ekki við í 18 ár.

Slíkt gæti sennilega ekki gerst á mínu heimili og ef eitthvað er þá er eins og konunni finnist ég stundum tala of mikið! En hér er klausan góða:

"Hjón í Michigan sóttu til yfirvaldanna um skilnað. Þau höfðu verið gift í 18 ár, en talast við aðeins fjórum sinnum allan tímann. – Bóndinn var nú orðinn þreyttur á þögninni, og sótti um skilnað. Í byrjun hjúskaparsamverunnar hafði ungu hjónunum orðið sundurorða, og skipaði bóndi þá konu sinni að þegja, sem hún gerði ræðilega í 18 ár."

Það fylgdi svo sögunni, að dómarinn hafi ekki heimilað skilnað á þessum forsendum! Ekki fylgir fregnum hvert framhaldið var, hvort eitthvað hafi ræst úr og karl og kerling farið að tala saman!

 

Sakfelling Chiracs kom á óvart

Sakfelling Jacques Chiracs fyrrum forseta Frakklands kom flestum á óvart. Ekki síst þar sem saksóknari hafði fallið frá refsikröfu. Verjandi Chiracs sagði að dómurinn væri þungur en yrði þó tæpast til að draga úr þeirri virðingu sem hann sagði þjóðina bera fyrir forsetanum fyrrverandi.

Chirac krafðist sýknu af ákærunni en var sakfelldur fyrir spillingu og fyrir að hafa misnotað fé Parísarborgar í tíð sinni sem borgarstjóri í þágu stjórnmálaflokks síns, RPR. Var 21 flokksgæðingur á launum hjá borginni 1991-1995 án þess að vinna handtak í ráðhúsinu. 

Fréttaskýrendur velta því fyrir sér hvort dómurinn hafi einhverjar breytingar í för með sér. Eins og til dæmis hvort lög um friðhelgi þjóðhöfðingja í embætti verði afnumin. Hefðu þeirra ekki notið við væri málinu væntanlega lokið fyrir mörgum árum. Ýmsir höfðu verið dæmdir í tengslum við þetta mál en bíða þurfti eftir að Chirac léti af starfi til að hægt væri að taka á þætti hans.

Forsetinn fyrrverandi hélt því alltaf fram að hann hafi ekki vitað af greiðslunum en játaði pólitíska ábyrgð á þeim. Samdi hann við Parísborg fyrir 2-3 árum að bæta fyrir þær með tveggja milljóna evra peningagreiðslu. Borgaði hann 500.000 evrur úr eigin vasa og UMP-flokkurinn það sem á vantaði, 1,5 milljónir evra. Af þeim sökum sagði borgin sig að sínu leyti frá málinu. 

Stjórnmálamenn lýstu því að þetta mál væri eiginlega alltof gamalt til að fella dóm í því sem þennan. Fannst mér það ekki sérlega viðeigandi af forsætisráðherranum Fillon því með því skautaði hann framhjá þeirri staðreynd að Chirac var friðhelgur í 12 ár sem húsbóndi í Elyseehöllu.

Spurningin er svo hvort þessi fyrsta sakfelling fyrrverandi forseta Frakklands verði til að draga eitthvað úr pólitískri spillingu hér í Frakklandi. Af fréttum undanfarin ár mætti ætla hún hafa verið grasserandi allt fram á þennan dag.

 

 


Eva Joly dæmd fyrir meiðyrði

Eva Joly, dómarinn fyrrverandi, sat fyrir skömmu á sakamannabekk í meiðyrðamáli sem júdókappinn og íþróttaráðherrann David Douillet höfðaði á hendur henni. Dómur gekk í gær og var Joly sakfelld.

Henni var úrskurðuð 1.000 evra sekt í ríkissjóð og hún dæmd til að borga málskostnað ráðherrans, 3000 evrur, auk þess sem hún var dæmd til að borga honum þær táknrænu miskabætur sem hann krafðist, eina evru. 

Forsaga málsins er sú að í hitteðfyrra, árið 2009, bar Eva Joly júdókappann fyrrverandi þeim sökum, að hann geymdi fé á reikningum í skattaparadísinni Liechtenstein. 

Dómarar sem dæmdu Joly snupruðu hana og sögðu að hún ætti sem fyrrverandi dómari að vita að henni væri óheimill slíkur áburður á opinberum vettvangi ef hún hefði engin sönnunargögn til að styðja sitt mál. Sögðu þeir, að hún hafi sýnt af sér kæruleysi með yfirlýsingum sem hún hafi haft í frammi án þess að hafa kynnt sér málið eða byggt það á bjargföstum staðreyndum.

Eva Joly hefur ákveðið að áfrýja dóminum. Sektargreiðslan er skilorðsbundin og fellur niður að tilteknum tíma liðnum haldi hún skilorðið. Þótt dómurinn þykir ekki góðar fréttir fyrir hana í aðdraganda forsetakosninganna næsta vor segist Joly ætla halda kosningabaráttu sinni ótrauð áfram og láta hann í engu koma sér úr jafnvægi.

 

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband