14.5.2009 | 07:10
„Andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni“ - Eiffelturninn 120 ára
Þetta er andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni sögðu 47 af helstu gáfumennum Frakklands sem börðust gegn byggingu Eiffelturnsins í París. Andmælabréf þeirra birtist í blaðinu Le Temps í febrúar 1847 er stöplarnir fjórir voru að koma upp úr jörðinni á Signubökkum. Hvað ætli þeim fyndist um andstöðu sína væru þeir á lífi í dag, 120 árum eftir að turninn var vígður. Já, Eiffelturninn á 120 ára afmæli á morgun, 15. maí. Klukkan 11:50 fyrir hádegi þann dag árið 1889 var hann opnaður almenningi.
Óhætt er að segja, að frægð og frami Tour Eiffel hefur aukist og vaxið með tíð og tíma. Mér er til efst, að önnur minnismerki séu jafn dáð. Upp í hann fara til dæmis ár hvert 7 milljónir manna og njóta sérdeilis frábærs útsýnis yfir Parísarborg. Nokkrum sinnum hef ég farið upp en síðasta ferðin í turninn var fyrir áratug, á lokadegi Tour de France hjólreiðakeppninnar og sá maður halarófuna liðast um borgina. Í stað þess að fara niður með lyftunni eins og venjulega varð ég að gjöra svo vel að þramma niður stigana. Yngri sonur minn tók ekki í mál að fara öðru vísi niður, þá aðeins 7 ára gamall! Það ferðalag tók nær hálftíma. Og ekki laust við að maður væri með strengi í lærum og verki í hnjám að því loknu!
Það stóð til að rífa turninn fljótlega eftir heimssýninguna í París 1889 en gáfaðri menn en menningarelítan komu í veg fyrir það. Hvaða fólk með sæmilegt skynbragð og góðan smekk myndi ekki þjást við tilhugsunina um svimandi fáránlegan turn er drottnaði yfir París eins og svartur og risastór verksmiðjuskorsteinn, þrúgandi villimannslegur massi er bæla myndi allt líf undir sér? spurðu dáðir listmálarar á borð við Ernest Meissonier og William-Adolphe Bouguereau, rithöfundarnir Guy de Maupassant og Alexandre Dumas, tónskáldið Charles Gounod og Charles Garnier arkitekt, svo einhverjir séu nefndir.
Já, byggingin olli miklum deilum og enginn skortur á napuryrðum í áróðursherferð og lögsóknum gegn framkvæmdinni. Var hugmynd Gustave Eiffel valin eftir samkeppni mikla en meðal tillagna sem hlutu ekki náð var risastór fallöxi. Hann sagði vindinn stærstu áskorunina við hönnun turnsins og því séu megin súlurnar fjórar íbognar. Ásamt því að efla mótstöðu byggingarinnar gagnvart veðri gefa bogalínurnar til kynna bæði kraft byggingarinnar og fegurð.
Öldungurinn ber sig einkar vel en hann er samsettur úr alls 18.038 bitum af smíðajárni. Til að skrúfa þá saman þurfti 2,5 milljónir boltarær. Á nokkurra ára fresti er hann málaður - slík vinna stendur einmitt yfir um þessar mundir - og skiptir málningin sérlagaða tugum tonna.
Turninn sætti gagnrýni fjölmiðla austan hafs og vestan meðan hann var í byggingu. Í Bandaríkjunum bar á öfund er menn áttuðu sig á að hann yrði nær helmingi hærri en Washington-minnismerkið. Eftir að turninn reis breyttist gagnrýni hins vegar fljótt í almenna aðdáun. Hvarvetna var hann lofaður og margar bækur hafa verið skrifaðar um hann og verkfræðinginn Eiffel sem var sérfræðingur í hönnun járnbrautarbrúa. Og það var ekki fyrr en 40 árum seinna, eða árið 1929, að hærra mannvirki reis, Chryslerbyggingin í New York.
Eins og fyrr segir stóð til að fella Eiffelturninn 20 árum eftir að hann var reistur. Segja má, að Gustave Eiffel hafi komið í veg fyrir þau áform með því að gera turninn að ómissandi hlekk í fjarskiptakerfi franska hersins.
Og þrátt fyrir að teljast ekki há bygging nú til dags í samanburði við risastóra skýjakljúfa víða um heim hrífur Eifffelturninn fólk, heillar það og töfrar. Í honum bræðast saman vísindi og tækni og þörfin fyrir lífsgleði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 16:46
Franskir hægrimenn með forskot í Evrópukosningunum
Franskir hægrimenn fara með sigur af hólmi í kosningum til Evrópuþingsins 7. júní næstkomandi, ef marka má skoðanakannanir. Listar UMP, flokks Nicolas Sarkozy forseta, hlýtur 27% atkvæða, Sósíalistar (PS) 22% og flokkur Francois Bayrou fær 13%, samkvæmt könnun stofnunarinnar OpinionWay-Fiducial.
Könnunin var gerð fyrir blöðin Le Figaro og sjónvarpsstöðvarnar TF1, LCI og RTL. Í sambærilegri könnun Ifop-stofnunarinnar fyrir vikuritið Paris Match var forskot UMP á PS ögn meira, eða 5,5%.
Fylgi flokks Sarkozy þykir athyglisvert en það er rúmlega 10% meira en í kosningunum 2004, er flokkurinn fékk tæp 17% atkvæða. Jafnframt segja stjórnmálaskýrendur að flokkurinn virðist ætla sleppa við að kjósendur refsi honum fyrir aðgerðir og stefnu ríkisstjórnarinnar.
Fylgi PS er 7% minna en 2004 og þetta er jafnframt í fyrsta sinn frá 1994 sem sósíalistaflokkurinn er ekki fylgismestur frönsku flokkanna við Evrópukosningar. Þykir það ekki góðs viti fyrir nýja flokksleiðtogann, Martine Aubry, sem stendur frammi fyrir sínum fyrstu kosningum.
Hún hefur reitt sig á að óánægja með aðgerðir stjórnar Sarkozy vegna efnahags- og fjármálakreppu myndi bitna á hægriflokki hans. Þvert á móti virðist sundurlyndi í Sósíalistaflokknum og á vinstri vængnum bitna á PS því smáflokkar vinstra megin við hann bæta við sig fylgi frá 2004.
Listar umhverfisverndarmannanna Daniel Cohn-Bendit og José Bové hafa tapað fylgi frá í apríl en það nemur nú 9 %. Þar er Eva Joly, rannsóknardómarinn fyrrverandi, í framboði.
Samkvæmt könnununum fá þrír öfgaflokkar til vinstri samtals 14% atkvæða í kosningunum og þrír öfgaflokkar til hægri 13% (þar á meðal er Þjóðfylking Le Pen.)
Andsnúnir Tyrkjum í ESB
Athyglisvert er, að meirihluti aðspurðra, 52%, sagðist ekki hafa hinn minnsta áhuga á kosningabaráttunni vegna Evrópuþingsins.
Þá er mikill meirihluti Frakka andvígur því að Tyrkir fái aðild að ESB. Þeirrar skoðunar eru 71% kjósenda MoDem og 82% kjósenda UMP. Stuðningsmenn PS skiptast í tvær fylkingar í afstöðunni til aðildar Tyrkja að ESB, 46% eru mótfallin því en 53% fylgjandi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 15:37
Fíkniefni fellir frægan hjólreiðagarp
Ekkert skil ég í hinum ágæta belgíska hjólreiðamanni Tom Boonen, sem verið hefur einn sá fremsti í heiminum undanfarin ár. Annað árið í röð hefur hann verið útskúfaður frá keppni í Tour de France, og af sömu ástæðu.
Boonen á erfitt með að umgangast áfengi og kókaín. Í fyrra var hann stöðvaður við akstur í heimalandi sínu og sendur í blóðpróf þar sem ljóst þótti að hann væri í einhvers konar vímu. Þar reyndist um kókaín að ræða.
Hjólreiðamenn eru undir strangara eftirliti en nokkrir aðrir íþróttamenn og því er undarlegt að Boonen skyldi ekki halda sig á mottunni eftir það sem á undan var gengið. Í fyrra slepptu belgísk dómsyfirvöld honum en búist er við að hann njóti ekki lengur velvilja vegna brotsins nú.
Kókaín er ekki á bannlista hjá íþróttahreyfingunni en neysla þess varðar við hegningarlög í Belgíu. Eins og í fyrra hefur liðið hans þegar sett hann í ótímabundið keppnisbann, rætt er um að það verði allt að hálft ár. Framkvæmdastjóri Tour de France segir augljóst, að útilokað sé að kappinn mikli verði með í Frakklandsreiðinni vegna þessara mála.
Boonen er frægur fyrir styrk sinn á endaspretti og hefur unnið margar dagleiðir í Tour de France á undanförnum árum. Þá komst hann í byrjun apríl í hóp örfárra hjólreiðagarpa sem sigrað hafa þrisvar sinnum í hinni frægu þolreið frá París til Roubaix.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 15:19
Horfinn skíðakappi fannst fyrir tilstilli Facebook
Rayamajhi er aðeins 17 ára og mun hafa fyllst vonleysi eftir að liðið hafði orðið að sjá á eftir styrktaraðila. Hermt er að hann hafi reikað burt frá Ölpunum og komist til Parísar á puttanum. Hann fór peningalaus og símalaus og talaði hvorki ensku né frönsku. En með hjálp vinsamlegra íbúa hér og þar á leiðinni hafi hann komist af. Lögregla stöðvaði hann margsinnis en frekari afskipti voru ekki höfð af honum þar sem hann var með pappíra og vegabréfsáritun í góðu lagi.
Þar sem hann hvarf svo sporlaust var jafnvel talið að hann hafi farist í fjöllunum, t.d. orðið undir snjóflóði. Til vonar og vara var hafin leit að honum á Facebook. Eftir henni tók maður nokkur sem rekist hafði á Rayamajhi. Tók hann sig til, leitaði hann uppi, fann hann við Bastillutorgið og sýndi honum síðuna sem honum var helguð. Á endanum féllst hann á að snúa aftur til félaga sinna í Les Arcs.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2009 | 13:10
Lagarde sögð taka við samkeppnismálum hjá ESB
Christine Lagarde, efnahagsmálaráðherra Frakklands, sest í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EU) eftir Evrópukosningarnar í næsta mánuði. Verður hún framkvæmdastjóri samkeppnismála og tekur við því starfi af hollensku konunni Neelies Kroes.
Þessu er haldið fram í þýska blaðinu Die Welt í dag en helstu samverkamenn Lagarde í París vilja ekki kannast við fréttina og segja hana helga sig óskorað starfi sínu í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta.
Die Welt ber fyrir sig heimildir úr röðum diplómata og samkvæmt þeim munu Sarkozy og forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jose Manuel Barroso, þegar samið um þessa niðurstöðu.
Í kvöld:
Við þetta má bæta, að sídegis sagði Lagarde að hún hefði ekki áhuga á starfi samkeppnisstjóra ESB. Hvers vegna gerist ég ekki þjálfari hjá [fótboltaliðinu í París] PSG?, svaraði hún blaðamanni sem spurði hana um áhuga hennar á starfinu og frétt Die Welt. Ég er að reyna að vinna sem best þau verk sem við er að glíma í ríkisstjórninni sem fjármálaráðherra, bætti hún við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)