15.5.2009 | 12:35
Eiffelturninn mest myndaða kennileiti heims
Vísindamenn rannsaka allt mögulegt og ómögulegt og nú hafa þeir komist að því, að ekkert kennileiti í heiminum sé ljósmyndað jafn mikið og Eiffelturninn í París. Upp í turninn fara 7 millljónir manna árlega sem er þó ekki nema tæp 10% erlendra ferðamanna sem til Frakklands koma á ári.
Fyrir nákvæmlega hálfri þriðju klukkustund voru 120 ár frá því Eiffelturninn var tilbúinn og opnaður almenningi. Það gerðist 15. maí árið 1889 klukkan 11:50 fyrir hádegi að staðartíma í París. Víst er að allar götur síðan hefur turninn verið myndaður mjög. Einnig hefur hann verið viðfangsefni teiknara og listmálara.
Rannsóknin sem í upphafi er vísað til fór fram í Cornell-háskólanum í Bandaríkjunum og tók hálft ár. Hún byggðist á úrvinnslu á 35 milljónum ljósmynda sem 300.000 notendur myndvefjarins flickr birtu á vefnum. Við rannsóknina beittu þeir svonefndri ofurtölvu.
Trafalgartorgið í London er næst vinsælasta myndefnið og í þriðja sæti Tate-nútímalistasafn borgarinnar. London kemur vel frá rannsókninni því tvö önnur kennileiti, Big Ben og Lundúnaaugað', eru í fjórða og sjötta sæti yfir mest mynduðu kennileiti heims. Frúarkirkjan í París (Notre Dame) er í fimmta sæti og Empire State-byggingin í New York í því sjöunda.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2009 | 09:43
Gómaður 29 árum eftir morð
Franskur karlmaður var hnepptur í gæsluvarðhald í gærkvöldi, sem er sosum ekki í frásögur færandi nema sakir þess að hann mun hafa á samviskunni morð á fjórum 17 til 26 ára konum á árunum 1980 til 1983.
Maðurinn er í haldi í sýslunni Essonne en morðin áttu sér stað við N20-þjóðveginn skammt frá borginni Etampes, suðvestur af Parísarborg, í tilgreindri sýslu.
Líffsýni sem fannst á vettvangi kom upp um manninn; sæði í bréfþurrku skammt frá einu fórnarlambanna gerði sérfræðingum kleift að greina ADN-kjarnsýrur hans. Hins vegar fannst hann ekki fyrr en í gær. Eftir er að greina frá því hvernig það bar að, að öðru leyti en því að það var erfðaefni hans sem kom honum að lokum undir hendur réttvísinnar.
Lögreglan verst fregna af handtökunni, m.a. vegna þess að hugsanlega teljast brotin fyrnd.
15.5.2009 | 06:55
Frakkar borða og sofa lengur en aðrir
Sérfræðingar Efnahagssamvinnustofnunarinnar (OECD) hafa í ótilgreindan tíma dundað sér við að rannsaka lifnaðarhætti fólks í 18 aðildarlöndum stofnunarinnar. Þeir hafa leitt í ljós, að Frakki sofi tæpar níu klukkustundir hverja nótt. Sem er meira en klukkustund lengur en meðaltals Japani og Kóreubúi.
Fyrir mér hljómar þetta ótrúverðuglega því reynsla mín er að Frakkar taka seint á sig náðir og rísa snemma úr rekkju. Og með síestunni hefði maður haldið að Spánverjar svæfu meira. Svo er ekki, þeir eru í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Bandaríkjamönnum, sofa röskar 8,5 stundir hvern sólarhring.
Þrátt fyrir að skyndibitinn gerist æ algengari og fleiri og fleiri renni niður samloku við skrifborð sitt fremur en borða digran hádegisverð á veitingahúsi verja Frakkar engu að síður á þriðju klukkustund við matarborðið dag hvern. Á mínu heimili erum við talsvert frá þessu meðaltali. Nema þegar heimsóknir eiga sér hingað stað, þá vill borðseta dragast á langinn.
Þessi niðurstaða þýðir að málsverðir Frakka eru tvöfalt lengri en til dæmis Mexíkómanna, sem verja ekki nema rétt rúmri klukkustund við matarborðið á dag.
Fróðleikur þessi birtist í skýrslu sem OECD nefnir „Gluggað í samfélagið“ og fjallar um rannsóknir á atvinnuháttum, heilsu og frístundum íbúa í löndum í Asíu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku.
Japanir skera svefn við neglur sér og þurfa langan tíma til að komast úr og í vinnu sem er lengri en hjá vel flestum. Samt tekst þeim að eyða næstum tveimur stundum á dag við matarborð. Eru í þeim efnum í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Nýsjálendingum.
Það sem eftir er af takmörkuðum frístundatíma kjósa Japanir að nýta til þess að hofa á sjónvarp eða hlusta á útvarp. Í það fer 47% af frítíma þeirra. Tyrkir, á hinn bóginn, verja rúmum þriðjungi frítíma síns til að skemmta vinum sínum og kunningjum.
Rannsóknin leiddi í ljós óvenjulega skiptingu milli vinnu og frístunda í nokkrum ríkjum. Til að mynda á Ítalíu. Þar er hafa karlar 80 mínútur umfram konur til frístunda. Umframvinna ítalskra kvenna, miðað við karlana, felst í heimilisstörfum þeirra, þrifum og tiltekt. Eins og karlarnir komi ekki nálægt þeim störfum!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2009 | 19:36
Lög um netlöggu samþykkt í Frakklandi
Þá er netlöggufrumvarp frönsku ríkisstjórnarinnar orðið að lögum, eftir að hafa fallið klaufalega í fyrstu atrennu í þinginu vegna fjarvista þingmanna flokks Nicolas Sarkozy forseta. Samþykktu báðar deildir þingsins það örugglega í gær. Fögnuðu listamenn og rétthafar um leið og þeir skömmuðust út í pólitíska fóstbræður sína í Sósíalistaflokknum fyrir að leggjast gegn frumvarpinu.
Þeir sem héðan í frá hlaða niður t.d. tónlist og kvikmyndum á netinu með ólögmætum hætti eiga nú yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár. Með þessu hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á sjóræningjastarfsemi á netinu. Og gengið sumpart gegn lögum Evrópusambandsins (ESB).
Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti fær við fyrsta brot, samkvæmt lögunum, aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín. Og láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.
Og það sem meira er, ekkert þýðir fyrir viðkomandi að reyna kaupa netaðgang af öðru netfyrirtæki, girt verður fyrir þann möguleika.
Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði höfðu fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykkis þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna. Hópur nafnkunnra listamanna úr ýmsum greinum, sem fylgt hefur Sósíalistaflokknum (PS) að málum, gekk á fund Martine Aubrey flokksformanns síðast í fyrradag og reyndi að telja hana á sitt band og til að fá þingmenn flokksins til að samþykkja lögin. Erindi höfðu þeir ekki sem erfiði og leyndu ekki gremju sinni í garð PS.
Ýmis neytendasamtök höfðu hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi lagðist gegn frumvarpinu og sagðir það hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.
Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni í síðasta mánuði en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2009 | 07:22
Ástarhreiður Sarkozy í íbúð Yves St. Laurent
Það verður ekki selt dýrara verði en það er keypt, en slúðurmiðlarnir halda því fram að Nicolas Sarkozy forseti og Carla Bruni eiginkona hans séu við það að kaupa sér ástarhreiður í París.
Þar er um að ræða íbúð á þremur hæðum í byggingu a vinstribakka Signu sem tískufrömuðurinn Yves St. Laurent bjó í til dauðadags, en hann lést í fyrra.´
Íbúðin er talin munu kosta langleiðina í fjórar milljónir evra. Segir sagan að Bruni, sem á sínum tíma var ein frægasta tískufyrirsæta heims, hafi þegar gert úttekt á íbúðinni. Ef sagan reynist rétt og af kaupum verður njóta forsetahjónin eflaust meiri kyrrðar og friðar þar en í skarkalanum í Elysee-höllu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)