Sarkozy styrkist í sessi

Sól Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta hækkar á lofti í samræmi við árstímann, ef marka má niðurstöður nýrra skoðanakannana á fylgi hans í framhaldi af stórsigri flokks forsetans (UMP) í kosningum til Evrópuþingsins 7. júní.

 

Samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI í vikunni fengi Sarkozy enn meiri stuðning í fyrstu umferð en 2007 færu forsetakosningar fram nú. Hefur hann meira forskot á helstu andstæðinga sína í dag, en þegar forsetakosningarnar fóru fram fyrir röskum tveimur árum.

 

Þá fékk Sarkozy 31,18% atkvæða í fyrri umferðinni en fengi 33% nú, samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI. Segolene Royal fengi sama fylgi og síðast, 21%, en Francois Bayrou aðeins 13% en hann fékk 20% atkvæða í fyrri umferðinni 2007. Anti-kapitalistinn Olivier Besancenot fengi 8% atkvæða eða prósentu minna en 2007. Aftur á móti bætti Jean-Marie Le Pen við sig, fengi 9% núi í stað 7% síðast.

 

Spurt var einnig hvernig viðkomandi myndu kjósa væri Martine Aubry, leiðtogi Sósíalistaflokksins, í forsetaframboði í stað Royal. Fékk hún minna fylgi eða 19%. Það sem hana vantar af fylgi Royal skiptist milli Bayrou og Besancenot því Sarkozy hlaut sama hlutfall atkvæða sem fyrr, 33%.

 

Samkvæmt könnun TNS-Sofres í síðustu viku fjölgaði þeim sem traust bera til Sarkozy um níu prósent, úr 32% í 41%, frá apríl og fram í júní. Þeim sem voru öndverðrar skoðunar og bera ekki traust til hans fækkaði um 8 prósent, eða úr 65% í 57%.

 

Miðað við niðurstöður könnunarinnar í apríl, sem voru Sarkozy mun óhagstæðari en nú,  naut hann meiri stuðnings eftir tvö ár á valdastóli heldur en Jacques Chirac, forveri hans, naut eftir jafn langa vist í Elyseehöllu. Til Chiracs báru aðeins 22% traust en 65% ekki. Francois Mitterrand stóð örlítið betur eftir tvö ár við völd, 30% báru þá traust til hans en 54% lýstu vonbrigðum með hann þá, eða 1983.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband