Eru Íslendingar áhugasamari um ESB en þegnar sambandsríkjanna?

Því velti ég stundum fyrir mér hvort Íslendingar séu áhugasamari um Evrópusambandið (ESB) en þegnar ríkja þess. Það finnst mér helst þegar saman eru bornar umræður heima á Íslandi um ESB og væntingar sem stór hluti þjóðarinnar virðist bera til þess. Á sama tíma búast þegnar aðildarríkjanna ekki við miklu af sambandinu. Og áhugaleysi þeirra á kosningum til Evrópuþingsins er algjört.

Til að mynda er Frökkum er „skítsama“ um kosningarnar, svo notað sé vont götumál. Hér hefur samt ekki vantað auglýsingar og áróður fyrir því að kjósendur flykkist á kjörstað á sunnudag og 161 flokkur er í framboði. Fjölmiðlar hafa varið miklu rými undanfarnar vikur og lagt sitt af mörkum til að vekja áhuga á kosningunum.

Þá hefur Sarkozy forseti ítrekað hvatt þjóðina til að nýta atkvæði sitt og talað máli Evrópusamstarfsins. En allt kemur fyrir ekki, það sýna hver skoðanakönnunin af annarri undanfarnar vikur. Í könnun Opinionway fyrir fjölmiðlana Apco, La Tribune og BFM og birtist í dag segjast 64% ekki ætla á kjörstað.

Hún leiðir og í ljós, að 73% Frakka og 67% Þjóðverja hafi engan áhuga á kosningunum.

Frakkar sem á annað borð ætla á kjörstað virðast ekki ætla að nota tækifærið til að kjósa gegn stjórn Sarkozy og efnahagsráðstöfunum hennar. Það sýna margar kannanir. Nú síðast í dag könnun TNS Sofres/Logica fyrir frönsku ríkissjónvarpsstöðvarnar, franska ríkisútvarpið og blaðið Le Monde.

Hún er á sama veg og margar fyrri kannanir; kosningabandalag stjórnarflokkanna (UMP og Nouveau centre) muni fá flesta fulltrúa kjörna á Evrópuþingið. Segjast 27% ætla kjósa þessa flokka, en t.a.m. aðeins 19% Sósíalistaflokkinn, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn.

Stjórnarflokkarnir hafa grætt á því hversu sundraður Sósíalistaflokkurinn hefur verið frá í frönsku forsetakosningunum fyrir tveimur árum. Og eins samstöðuleysi vinstri flokkanna, sem ekki hafa getað komið sér saman um sameiginleg framboð gegn stjórnarflokkunum.

Umhverfisflokkur Daniels Cohn-Bendit, Europe Ecologie, hefur sótt í sig veðrið og er í þriðja sæti með 15,5% fylgi. Miðjuflokkur Francois Bayrou nýtur 12,5% fylgis. Aðrir flokkar njóta mun minna fylgis, t.d. Þjóðfylking Jean-Marie Le Pen er t.a.m. með 5,0% fylgi. 


Gruna að hrím eða ísing hafi ruglað flugtölvur Air France þotunnar

Hvarf frönsku Airbusþotunnar milli Brasilíu og Senegal er sérfræðingum enn hulin ráðgáta. Þeir virðast þó vera hallast helst að því, að hrím eða ísing hafi hlaðist á hana í gríðarlega ókyrru lofti í grennd við miðbaug. Jafnvel að ísing hafi myndast inni í hreyflunum og við það hafi flókið kerfi skynjara og rafeindabúnaðar ruglast í ríminu og sent villandi upplýsingar til flugtölvunnar, sem matar sjálfstýringuna og/eða flugmenn á upplýsingum um virkan búnaðar þotunnar.

A330 þota Airbus er sögð ein tæknivæddasta farþegaþota heims. Tölvukerfi hennar sendir m.a. sjálfvirkt gögn og athugasemdir um virkan stjórnbúnaðar til viðhaldsstöðva Air France til að auðvelda eftirlit og viðhald. Fjöldi slíkra boða bárust á þriggja mínútna skeiði undir lok flugsins. Af slíkum sendingum á síðustu mínútum flugferðarinnar örlagaríku hefur verið reynt að púsla saman mynd af því sem hugsanlega gerðist.

Meðal slíkra gagna eru boð um skyndilegan rafkerfisbrest og einnig að þrýstingur hafi farið af stjórn- og farþegaklefanum. Hið fyrrnefnda þykir benda til að drepist hafi samtímis á báðum hreyflum og þeir ekki farið aftur í gang. Mörg dæmi eru um grunsamlega hreyfilslokknun á flugi en m.a. hefur verið girt fyrir slíkar hættur með því að hafa afísingarbúnað í gangi þegar flogið er í mjög ókyrra lofti þar sem þruma og eldinga er von.

Eigi slík slokknun sér stað er í þotum búnaður tengdur hreyflunum sem nýtir hreyfiþrýsting og gerir flugmönnum m.a. kleift að hafa stjórn á lækkun hreyfildauðrar flugvélar svo nauðlenda megi henni. Hafi sá búnaður skemmst einnig, vegna ísingar sem brotið hefur t.d. hreyfilblöð, hafi flugmennirnir ekkert fengið að gert og þotan hrapað stjórnlaust.

Meðan flugriti þotunnar er ófundinn kemur hið sanna ekki í ljós. Og ekki heldur hvort flugmennirnir hafi reitt sig á sjálfstýringu flugvélarinnar eða tekið stjórn flugsins yfir. Sé kenningin um villandi boð frá nemum þotunnar til stjórntölvunnar hafi viðbrögð við þeim eftir sem áður getað verið röng og leitt til þess að hún fórst. Þegar flugvélin ferst sýna rannsóknir á veðurfari á þeim slóðum, að hún hafi verið búin að vera í 10-15 mínútur í einstaklega ókyrru lofti, þar sem skipst hafi á gríðarlegt uppstreymi og niðurstreymi lofts.

Eins og svo oft áður, þykja því líkur á, að margir samverkandi þættir hafi orsakað flugslysið. Til að leiða hið sanna í ljós, svo koma megi í veg fyrir endurtekningar óhappa sem þessa, verður áhersla lögð á að finna flugrita þotunnar. Og brak, sem a.m.k. getur gefið vísbendingar um hvort hún hafi byrjað að brotna og splundrast á flugi eða hrapað tiltölulega heil í hafið.

 


Elding hefur aldrei grandað farþegaþotu - flugmaður sá logandi eld

Elding hefur aldrei grandað farþegaþotu. Um það eru franskir flugöryggisfræðingar sammála. Þeir eru hins vegar ráðþrota gagnvart hvarfi þotu Air France yfir Atlantshafi á leið frá Rio de Janeiro til Parísar. Í gegnum veðrakerfið við miðbaug fóru 30 aðrar þotur klakklaust á svipuðum tíma og súa franska.

Þar á meðal var þota frá brasilíska flugfélaginu TAM og flugstjóri hennar sagðist hafa séð eitthvað brennandi á sjávarfletinum. Tímasetning hans kemur heim og saman við hvarf Air France-þotunnar. Flugmaðurinn vissi hins vegar ekkert um afdrif hennar fyrr en eftir lendingu í Brasilíu og lét þá vita  af sýn sinni.

Flugöryggisfræðingar vilja ekkert útiloka sem hugsanlega ástæðu slyssins, ekki heldur hryðjuverk. Þeir eru efins um að elding eða illt veður hafi orsakað slysið, segja þotur smíðaðar til að standast hvort tveggja og oft fá í sig eldingar. 

Þeir telja helst að samverkandi þættir hafi átt sér stað, þ. á m. alvarleg tæknibilun og hugsanlega veður. Þeir eru á því að eyðilegging þotunnar hafi gerst snögglega og gengið hratt fyrir sig. Það ráða þeir m.a. af því að flugmennirnir hafi ekki sent út neyðarkall. Slíkt kalla hefðu aðrar þotur átt að heyra en franska þotan var utan ratsjár- og fjarskiptasambands við Brasilíu og Afríku þegar hún hvarf.

Franska stjórnin fór strax í gær fram á aðstoð bandaríska varnarmálaráðuneytisins við að staðsetja slysstaðinn. Vonast er til að með hjálp njósnahnatta megi staðsetja sem nákvæmast hvar hún kom niður til að auðvelda leit að braki og hugsanlega hljóð- og ferðritum hennar.

Vafasamt finnst mér að leggja trúnað á frétt norska götublaðsins Verdens Gang um að farþegi í þotunni hafi sent sms til sinna nánustu er þotan var að farast. Hvernig er hægt að senda sms úr flugvél sem er utan alls venjulegs fjarskiptasambands?

 


Takk fyrir, Gourcuff

Verð að lýsa ánægju með franska knattspyrnumanninn Yoann Gourcuff. Hann samdi í dag um að vera fjögur næstu árin í herbúðum Bordeaux í stað þess að snúa til AC Milan á Ítalíu, sem lánaði hann í fyrra til Bordeaux til eins árs.

Gourcuff er að mínu mati afskaplega leikinn og nettur spilari, útsjónarsamur og með mjög gott auga fyrir samspili. Skapar ætíð usla og hættu þegar hann er með knöttinn í nánd við vítateig andstæðinganna.  Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með honum síðastliðið ár. Og eflaust á hann eftir að skemmta manni oft á næstu árum.

Í lánssamningnum fékk franska félagið kost á því að kaupa Gourcuff þar sem hann var þá ekki inni í langtímaplönum þjálfarans Carlo Ancelotti. Það voru skemmtileg mistök hjá Ancelotti því hjá Bordeaux hefur Gourcuff blómstrað - og einnig með franska landsliðinu en þar hefur hann verið fastamaður frá í fyrrasumar. Í liðinu hefur hann náð vel saman með Thierry Henry og Franck Ribery. Ætli hann sé ekki betur settur í Frakklandi en í Mílanó.

Sl. sunnudag kusu leikmenn frönsku deildarinnra Gourcuff sem leikmann ársins. Allar líkur eru á því að hann verði franskur meistari um komandi helgi. Fyrir lokaumferðina er Bordeaux með þriggja stiga forskot á Marseilles. Þarf aðeins að komast hjá því að tapa í Caen á laugardaginn kemur. Bordeaux hefur unnið 10 síðustu leiki sína í röð og allra síst má það við því að tapa núna.

Gourcuff hefur skorað 12 mörk í deildinni frönsku á vertíðinni og eins og að framan segir, stefnir allt í að Bordeaux hampi meistaratitlinum í fyrsta sinn frá 1999. Þá hefur hann sett upp mörg fyrir framherjann Marouane Chamakh.

Laurent Blanc, heimsmeistari frá 1998, hefur stýrt Bordeaux í vetur og segir það hafa verið forgangsmál hjá sér að endurráða Gourcuff. Sjálfur framlengdi hann sinn samning til að sannfæra hinn 22 ára leikmann um að vera um kyrrt.

Markmið Blanc er að Bordeaux geri stærri hluti í meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en í ár. Þesss vegna lagði hann svo mikla áherslu á að halda í Gourcuff.

Samkvæmt skilyrðum lánssamningsins varð Bordeaux að greiða AC Milan 15 milljónir evra fyrir að halda Gourcuff. Í samningi við hann sem undirritaður var í dag, þurfa önnur lið að bjóða a.m.k. 20 milljónir evra í hann til að leysa hann undan samningi við Bordeaux.

Með samningnum vænkast fjárhagur Gourcuff. Hann hefur haft 170.000 evrur í mánaðarlaun. Hann vildi fá hækkun í 400.000 en Bordeaux bauð 300.000. Hver niðurstaðan varð hefur ekki verið skýrt frá, en ekki ólíklegt að hún liggi einhvers staðar á milli launatilboðsins og kaupkröfunnar.

 


Gemsinn bannaður í frönskum grunnskólum

Farsímar verða bannaðir í frönskum grunnskólum og símafyrirtækjum verður gert skylt að bjóða upp á síma sem einungis er hægt að nota til að senda textaskilaboð. Þetta er gert til þess að lágmarka hættu á heilsutjóni barna. Sem stendur liggur einungis bann við símanotkun inni í skólastofum.  Þá kemur til álita að takmarka farsímanotkun franskra barna enn frekar. Áður en eitthvað verður ákveðið í þeim efnum verður beðið niðurstöðu franskra og alþjóðlegra rannsókna á meintri skaðsemi farsíma.

Til að takmarka hættu á heilaskaða af völdum rafsegulgeislunar frá símum verða símafyrirtækin sömuleiðis skylduð til að bjóða upp á hátalaralausa síma sem einungis  verður hægt að nota með því að tengja heyrnartól við þá.

Þetta er gert í framhaldi af sex vikna yfirlegu og umfjöllunar sérfræðinga um geislun frá farsímum,  þráðlausum fjarskiptabúnaði og fjarskiptasendum. Samtök sem áttu aðild að samráðsvettvangi um þetta efni vildu sum hver, að gengið yrði miklu lengra. Vildu þau banna börnum undir 14 ára aldri að meðhöndla farsíma og að útsendingartíðni fjarskiptamastra yrði takmarkaður stórlega auk þess sem staðsetning mastranna yrði takmörkunum háð.

Að sögn heilbrigðisráðherrans, Roselyne Bachelot, vildu stjórnvöld ekki grípa til aðgerða gegn möstrunum þar sem engar vísbendingar væru fyrir hendi um skaðsemi þeirra fyrir fólk og skepnur.

Tilraunir verða gerðar í þremur borgum til að kanna hvort draga megi að skaðlausu úr útsendingarstyrk senda. Fjöldi samtaka um land allt hefur krafist þess að sendimöstur nálægt skólum, sjúkrahúsum og heimilum verði tekin niður. Geislun frá þeim er iðulega sögð valda svefnleysi, höfuðverk,  þreytu og jafnvel krabbabeini.

Dæmi eru um að dómstólar hafi fallist á kröfur um að sendimöstur verði fjarlægð. Það veldur símafyrirtækjunum áhyggjum, ekki síst þar sem engar sannanir þykja vera fyrir hendi um meinta skaðsemi þeirra.

Til dæmis kom áfrýjunarréttur í Versölum á óvart er hann fyrirskipaði símafyrirtækinu Bouygues að rífa sendimastur í bænum Tassin-la-Demi-Lune, skammt frá Lyon. Fjölskyldur þar óttuðust um heilsu sína. Dómararnir féllust á að engar vísbendingar um hættu væru fyrir hendi. Þeir sögðu á móti, að það væri heldur engin trygging fyrir því að hættan væri ekki til staðar. „Óttatilfinning“ íbúanna í grennd mastursins væri því réttlætanleg. Úrskurðuðu dómararnir því þeim í hag samkvæmt varúðarreglunni svonefndu.

Vegna rannsókna sem þykja benda til að þráðlaus tækni geti verið skaðleg hefur víða um land verið slökkt á þráðlausu netsambandi, t.d. í bókasöfnum.punktar

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband